„Það er bara tilhlökkun," sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, þegar hann ræddi við Fótbolta.net fyrir úrslitaleikinn í Bestu deildinni sem fer fram á sunnudag.
Breiðablik heimsækir Víkinga í lokaleik deildarinnar en annað hvort þessara liða verður Íslandsmeistari. Liðin eru jöfn að stigum en Víkingar eru með betri markatölu.
Breiðablik heimsækir Víkinga í lokaleik deildarinnar en annað hvort þessara liða verður Íslandsmeistari. Liðin eru jöfn að stigum en Víkingar eru með betri markatölu.
„Það er bara æðislegt sem leikmaður að fá að taka þátt í þessum viðburði á sunnudaginn. Sennilega er þetta stærsti leikur í sögu Íslandsmótsins. Þetta er bara meiriháttar," sagði Höskuldur.
Það verður allt undir á sunnudaginn en Breiðablik náði að búa til þennan úrslitaleik með því að leggja Stjörnuna að velli. Fyrr um þann dag hafði Víkingur unnið ÍA en mikil umræða var um stór dómaramistök í þeim leik. Mark var ranglega tekið af ÍA undir lokin í stöðunni 3-3. Víkingar fóru svo upp og skoruðu. Blikar höfðu engan áhuga á því að láta Íslandsmótið enda þannig en ef þeir hefðu tapað gegn Stjörnunni, þá hefði mótið svo gott sem verið búið. Blikar stóðust pressuna og bjuggu til úrslitaleik.
„Þetta var mjög 'tricky' leikur fyrir Stjörnunni. Þeir eru með hörkulið og eru orkumiklir, erfiðir við að eiga. Svo náttúrulega var það 'tricky' staða að nálgast þann leik þar sem við höfðum öllu að tapa. Mér fannst við leysa það vel og heilt yfir var það heilsteypt frammistaða," sagði Höskuldur en hann viðurkennir að það hafi verið flókið að leikur ÍA og Víkings hafi farið fram fyrr um daginn.
„Maður er mannlegur, við erum engin vélmenni. En leikmannahópurinn tæklar það eins og margt annað í sumar af einstakri fagmennsku."
Besta tímabilið á ferlinum?
Höskuldur hefur átt frábært tímabil persónulega og verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins. Ert þú að eiga þitt besta tímabil?
„Já, eflaust. Þau hafa verið helvíti fín síðustu tímabilin. Það má segja að þetta tímabil sé aðeins fyrir ofan. Maður er orðinn nokkuð sjóaður í að vita hvað virkar fyrir mann. Hausinn verður líka alltaf sterkari, reyndari og klókari. Ætli þetta sé ekki bara blanda af reynslu og að fá að spila fleiri leiki á miðjunni?" sagði fyrirliði Blika.
Allt viðtalið má sjá hér að ofan þar sem Höskuldur ræðir meira um tímabilið hjá Blikum.
Athugasemdir