Graham Potter þjálfari West Ham var svekktur eftir 3-2 tap í Brighton í sveiflukenndum leik í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Brighton var með 1-0 forystu í leikhlé en West Ham sneri stöðunni við í síðari hálfleik og var með 1-2 forystu á 89. mínútu, þegar heimamönnum tókst fyrst að jafna leikinn og síðan sigra með marki í uppbótartíma.
„Við gerðum margt gott í dag en töpuðum útaf tveimur mörkum sem komu með skotum utan vítateigs. Við sköpuðum mikið af færum og skoruðum tvö mörk og ef við spilum alltaf svona munum við ná betri úrslitum í framtíðinni," sagði Potter eftir tapið.
„Það er margt jákvætt við þetta tap en tilfinningarnar eru neikvæðar. Það er erfitt að samþykkja þetta en við verðum að gera það og halda áfram á okkar braut. Við köstuðum þessum stigum frá okkur og það er sárt."
Potter hefur verið að gera flotta hluti frá því að hann tók við West Ham sem var í fallbaráttunni en er núna 15 stigum fyrir ofan fallsæti, þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir.
„Við verðum að horfast í augu við að þetta er búið að vera lélegt tímabil fyrir okkur. Það er jákvætt að við höfum haldið okkur í deildinni en þetta er ekki nógu gott, við verðum að gera betur."
Athugasemdir