Franski framherjinn Kylian Mbappe skoraði 28. deildarmark sitt í 2-1 sigri Real Madrid á Mallorca í gær og setti hann um leið nýtt félagsmet.
Öll augu voru á Mbappe þegar hann samdi við Real Madrid síðasta sumar.
Frammistaða hans var arfaslök fyrri hluta tímabilsins og kepptust fjölmiðlar um að gagnrýna sóknarmanninn.
Hún fór batnadi með hverri vikunni sem leið og í gær skoraði hann 28. deildarmark sitt á tímabilinu. Þar bætti hann 71 árs gamalt met Alfredo Di Stefano, sem gerði 27 deildarmörk á fyrsta tímabili sínu með Madrídingum.
Mbappe hefur í heildina skorað 39 mörk í 53 leikjum og má segja að það hafi ræst ágætlega úr tímabilinu ef horft er í hans persónulegu frammistöðu.
Tímabilið hjá Real Madrid er auðvitað skelfing í augum liðsins, stjórnarmanna og stuðningsmanna, en liðið er svo gott sem búið að tapa titilbaráttunni, tapaði þá öllum leikjum sínum gegn erkifjendunum í Barcelona, þar á meðal bikarúrslitaleiknum, ásamt því að hafa dottið úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, keppni sem Madrídingar hafa verið með yfirráð yfir síðustu áratugi.
Athugasemdir