Ómetanlegt að fá traust og stuðning í endurkomunni


Hún varð Íslandsmeistari í fjórða sinn sumarið 2023 og var hluti af hópi Vals sem varð svo bikarmeistari í fyrra.
Anna Björk Kristjánsdóttir gekk nokkuð óvænt í raðir KR undir lok félagaskiptagluggans í síðasta mánuði. Anna Björk er fyrrum landsliðs- og atvinnumaður sem hafði verið hjá Val frá miðju sumri 2023. Hún spilaði ekkert seinni hluta síðasta sumars þar sem hún var ólétt og eignaðist svo í vetur sitt fyrsta barn.
Miðvörðurinn er mætt í uppeldisfélagið en þar hóf hún sinn feril og var þar til hún í Stjörnuna þar sem hún varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari. Árið 2016 fór hún til Svíþjóðar þar em hún var í þrjú ár áður en hún hélt til Hollands og lék með PSV. Hún kom aftur til Íslands 2020 og var með Selfossi áður en kallið kom frá Le Havre í Frakklandi. Árið 2021 fór hún svo til Inter og var til sumarsins 2023. Hún ræddi við Fótbolta.net um heimkomuna í KR.
Miðvörðurinn er mætt í uppeldisfélagið en þar hóf hún sinn feril og var þar til hún í Stjörnuna þar sem hún varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari. Árið 2016 fór hún til Svíþjóðar þar em hún var í þrjú ár áður en hún hélt til Hollands og lék með PSV. Hún kom aftur til Íslands 2020 og var með Selfossi áður en kallið kom frá Le Havre í Frakklandi. Árið 2021 fór hún svo til Inter og var til sumarsins 2023. Hún ræddi við Fótbolta.net um heimkomuna í KR.
Andinn í KR allt annar
„Það er virkilega góð tilfinning að vera komin aftur í KR. Ég þekki enn marga innan félagsins og þetta er eins og að koma heim. Ég hef lengi hugsað að ég myndi snúa aftur einhvern tímann. Það hefur verið gagnrýni á metnað félagsins gagnvart kvennaboltanum en nú finnst mér andinn allt annar. KR vill gera betur og koma kvennaliðinu aftur í fremstu röð og það tekur tíma, en einhvers staðar þarf að byrja. Fyrir mig er það ómetanlegt að koma í lið sem sýnir mér traust og styður mig í endurkomunni eftir barnsburð," segir Anna Björk.
Spennt fyrir uppbyggingunni og vill gefa af sér
Hvernig var aðdragandinn?
„KR hefur haft samband við mig í gegnum árin, en það var aldrei rétti tíminn. Núna ákvað ég að setjast niður með þeim, og það varð strax ljóst að stefnan hafði breyst. Mér finnst spennandi að taka þátt í uppbyggingunni, ég er að koma til baka eftir barnsburð og þó ég sé ekki tilbúin að spila strax get ég vonandi gefið af mér og hjálpað liðinu."
Heyrði aldrei neitt í stjórn Vals
Kom til greina að vera með Val í sumar?
„Í raun ekki. Ég hef unnið mjög vel með Jóa styrktarþjálfara og á honum mikið að þakka, en ég heyrði aldrei neitt í stjórn félagsins eftir að ég varð ólétt."
Finnst þér skrítið að stjórn Vals hafi ekki talað við þig?
„Já, að vissu leyti. Hvort sem þeir ætluðu að bjóða mér samning eða ekki hefði mér fundist eðlilegast að heyra eitthvað frá þeim og vita mína stöðu innan liðsins," segir Anna Björk sem varð samningslaus eftir síðasta tímabil.
Ekki alveg tilbúin en finnur bætingu með hverjum degi
Hvernig er standið á þér í dag, er langt í að þú getir farið að spila?
„Standið á mér er nokkuð gott. Ég er ekki alveg tilbúin að spila ennþá en finn bætingu með hverjum degi og líður vel í líkamanum. Ég er aðeins byrjuð að sparka í bolta með liðinu og þetta er allt á réttri leið."
Verður þetta þessi svokallaði síðasti dans?
„Tíminn verður að leiða það í ljós. Mér leið mjög vel í líkamanum áður en ég varð ólétt og fannst ég eiga nóg inni. Það er mikil vinna að koma til baka eftir meðgöngu, en mig langar að sjá hvað ég get. Hvort þetta verði lokakaflinn – það kemur í ljós."
Dýrmæt reynsla fyrir framtíðina
Hvernig líst þér á KR liðið í dag, hvað getið þið gert í sumar?
„Mér líst mjög vel á hópinn – góð blanda af ungum og reyndari leikmönnum. Við einblínum á að bæta okkur sem lið, tryggja sæti í Lengjudeildinni og byggja upp reynslu. Þetta er ungur hópur og mínútur í sumar verða dýrmæt reynsla fyrir framtíðina. Þær hafa tekið vel á móti mér og ég er gríðarlega spennt að byrja á fullu með þeim," segir Anna Björk.
Athugasemdir