
Breiðablik tapaði gegn Vestra í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins fyrr í kvöld. Leikar enduðu 1-2 á Kópavogsvelli. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 2 Vestri
„Við vorum mikil vonbrigði með fyrri hálfleikinn, ég veit ekki hvort við héldum að við gætum gert þetta á 70 prósent hraða. Vorum soft í návígum, allt öðruvísi en fyrir vestan. Þeir eru auðvitað mjög sterkir líkamlega. Ef við erum ekki 100 prósent þá erum við í brekku.“
„Við komum með frábær svör í seinni hálfleik. Við skorum fljótlega og erum með leikinn í okkar höndum. Það er að fá á sig eina sókn allan seinni hálfleikinn og það er mark sem er svekkjandi. Við látum þá teyma okkur í þetta. Heilt yfir vorum við ekki nógu góðir.“
Breiðablik datt út úr bikar í 32 liða úrslitum í fyrra og nú í 16 liða úrslitum.
„Í fyrra töpum við gegn Keflavík og nú gegn Vestra. Maður dettur út ef maður tapar. Bikarkeppni er bara svona, ef maður misstígur sig einu sinni þá ertu búinn, það er í eðli þessarar keppni.“
Athugasemdir