

Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir varði mark Keflavíkur í 1-1 jafntefli gegn Tindastóli fyrr í kvöld.
Keflavík komst yfir í fyrri hálfleik en Sauðkræklingar jöfnuðu í þeim síðari. Bæði lið eru með fjögur stig eftir tvær umferðir.
„Þetta var spennandi, hraður og skemmtilegur leikur en ég hefði viljað fá þrjú stig. Maður tekur stigið frekar en að taka ekkert stig," sagði Ásta Vigdís, sem var ekki sátt eftir samstuð við Murielle Tiernan sem fékk gult spjald fyrir að brjóta á Ástu.
„Ég fer út í boltann, sparka í hann og fæ leikmanninn, sem hefði getað stoppað, í mig á fullri ferð. Ekki sátt."
Síðar í leiknum vildi hún svo fá vítaspyrnu þegar markvörður Tindastóls lenti í samstuði við Natasha Moraa Anasi, fyrirliða Keflavíkur.
„Við áttum algjörlega að fá vítaspyrnu, Natasha er allan tímann með þennan bolta og markmaðurinn kýlir hana. Fyrir mér er það víti."
Ásta er spennt fyrir sumrinu og stefnir Keflavík beint aftur upp í Pepsi Max-deildina eftir fall í fyrra.
Athugasemdir