Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 02. september 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 20. sæti
West Brom
West Brom hafnaði í öðru sæti Championship á síðustu leiktíð.
West Brom hafnaði í öðru sæti Championship á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Slaven Bilic, stjóri West Brom.
Slaven Bilic, stjóri West Brom.
Mynd: Getty Images
Matheus Pereira.
Matheus Pereira.
Mynd: Getty Images
Semi Ajayi í baráttunni.
Semi Ajayi í baráttunni.
Mynd: Getty Images
Fagnað eftir að sæti í úrvalsdeild var tryggt.
Fagnað eftir að sæti í úrvalsdeild var tryggt.
Mynd: Getty Images
West Brom er spáð beinustu leið aftur niður.
West Brom er spáð beinustu leið aftur niður.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í síðasta sætinu eru nýliðar West Brom.

Um liðið: West Bromwich Albion er komið aftur upp í deild þeirra bestu eftir tvö ár í Championship-deildinni. Síðast þegar West Brom komst upp í efstu deild var liðið í henni í átta tímabil. Hvað gerist nú?

Staða á síðasta tímabili: 2. sæti í Championship.

Stjórinn: Slaven Bilic stýrir skútunni hjá West Brom. Króatinn geðþekki er með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni, bæði sem leikmaður og knattspyrnustjóri. Hann stýrði West Ham frá 2015 til 2017 og núna er hann, eins og West Brom, mættur aftur í ensku úrvalsdeildina. Hann tók við liðinu fyrir síðasta tímabil, kom því upp í fyrstu tilraun og fær núna ærið verkefni að halda því uppi.

Styrkleikar: Liðið var öflugt á báðum endum vallarins á síðustu leiktíð, í þriðja sæti í skoruðum mörkum og í öðru sæti hvað varðar fæst mörk fengin á sig. Stjóri liðsins þekkir ensku úrvalsdeildina vel. Ef Grady Diangana og Filip Krovinovic bætast við hópinn eins og talað er um, þá er þetta farið að líta ansi vel út í línunni fyrir aftan sóknarmanninn. Liðið vill spila frá aftasta manni en föstu leikatriðin er öflugt vopn.

Veikleikar: Það hefur ekkert verið bætt við hópinn. Matheus Pereira er eini leikmaðurinn sem er kominn, en hann var keyptur í sumar eftir að hafa verið í láni í fyrra. Það gætu verið fleiri leikmenn á leiðinni en við verðum að bíða og sjá. Það er stórt stökk úr Championship í ensku úrvalsdeildina og það er erfitt að sjá það núna að þessi leikmannahópur sé undir það búinn. Bilic hefði væntanlega ekkert á móti því að fá inn aðra níu þar sem möguleikar hans núna eru Charlie Austin og Hal Robson-Kanu. Liðið skoraði fullt úr föstum leikatriðum í fyrra en fékk líka á sig fullt af mörkum úr föstum leikatriðum.

Talan: 31. Liðið safnaði það mörgum stigum þegar það féll úr ensku úrvalsdeildinni 2018.

Lykilmaður: Matheus Pereira
Sóknarsinnaður miðvallarleikmaður sem átti mjög flott tímabil í Championship. Hann er Brasilíumaður sem getur spilað í holunni og á kanti. Hinn 24 ára gamli Pereira skoraði átta mörk og lagði upp 16 í deildarkeppni í fyrra, og var valinn leikmaður ársins hjá stuðningsmönnum West Brom. Flottar spyrnur og mjög skapandi leikmaður.

Fylgstu með: Semi Ajayi
Varnarmaður sem hefur spilað í neðri deildum Englands, allt frá fimmtu efstu deild og upp í Championship. Núna fær hann sitt fyrsta tækifæri í efstu deild. Stór og stæðilegur leikmaður sem var einu sinni á mála hjá Arsenal, en fékk aldrei tækifæri þar.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Það er ekki annað hægt en að fagna endurkomu Slavens Bilic í ensku úrvalsdeildina. Margir vilja tala um WBA sem eitt mesta jójó-lið enska boltans en það gleymist alveg að félagið var í efstu deild frá 2011-2018 og var í fimm af sjö leiktíðum um miðja deild. Þetta er alvöru klúbbur sem á að geta haldið sér í efstu deild en þá verður það að gera miklu meira á félagaskiptamarkaðnum. WBA hefur áður komið betur undirbúið fyrir deild þeirra bestu og veturinn verður mjög langur ef Bilic fær ekki að kaupa fleiri leikmenn en Matheus Pereira sem Sporting sá ekki not fyrir.“

Komnir:
Matheus Pereira frá Sporting Lissabon - 9 milljónir punda

Farnir:
Chris Brunt
Nathan Ferguson til Crystal Palace - Frítt
Jonathan Leko til Birmingham - Óuppgefið verð

Fyrstu leikir: Leicester (H), Everton (Ú) og Chelsea (H)

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. ?
19. ?
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner