Telma Steindórsdóttir er búin að framlengja samning sinn við Fram og verður hjá félaginu næstu tvö keppnistímabil hið minnsta.
Telma er 19 ára miðvörður sem tókst að skora þrjú mörk í tólf leikjum í Lengjudeildinni í fyrra og var hún valin sem efnilegasti leikmaður Fram eftir síðasta tímabil.
Telma er uppalin hjá Val en hafði spilað fyrir KR og HK þegar hún gekk til liðs við Fram um mitt sumar 2023.
Telma, sem á sex leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands, mun því leika með Fram í Bestu deildinni á komandi leiktíð.
„Það er mikið fagnaðarefni að Telma taki slaginn með okkur áfram. Hún er sem stendur í námi í Bandaríkjunum og við hlökkum mikið til að fá hana aftur heim í vor," segir meðal annars í tilkynningu frá Fram.
Athugasemdir