Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, var að vonum ánægð með 4-1 sigur liðsins á Þór/KA í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 1 Þór/KA
Blikar skoruðu þrjú mörk á fyrsta hálftímanum og gerði Natasha Moraa Anasi fjórða markið í byrjun þess síðari.
Eftir það leyfðu Blikar gestunum aðeins að færa sig ofar og var það partur af leikplaninu.
„Þetta var mjög öflug byrjun hjá okkur. Við töluðum um að keyra á þetta í fyrri hálfleik og fannst við gera það mjög vel. Við settum vel á þær og settum þrjú mörk í fyrri hálfleik en fannst mér stundum detta niður á lægra tempó en við ættum að vera á. Við fengum stundum of mikinn tíma og ákváðum að nýta hann allan þegar við hefðum getað gert hlutina hraðar," sagði Ásta Eir við Fótbolta.net.
Blikar vildu ekki taka of marga sénsa þegar hálftími var eftir eða svo og lögðust aðeins til baka.
„Ekkert bara að taka of mikla sénsa. Mér fannst allt í lagi að leggjast aðeins aftar og leyfa þeim að koma og verjast því bara vel sem mér fannst við gera í seinni hálfleik og svo reyndum við að nýta þegar þær opnuðust. Ég er mjög ánægð með þetta," sagði hún ennfremur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir