FH er að ganga frá kaupum á Patrik Johannesen frá Breiðabliki en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Patrik er 28 ára gamall færeyskur landsliðsmaður sem hefur lítið komið við sögu í síðustu leikjum með Blikum.
Hann var ónotaður varamaður í 4-2 sigrinum á KR í Bestu deildinni á dögunum og einnig í fyrri leiknum gegn Drita FC frá Kósóvó í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Síðasti byrjunarliðsleikur hans kom gegn Vestra þann 6. júlí en síðan þá hefur hann fengið fáar mínútur.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Patrik að skipta um félag í leit að fleiri mínútum en FH er að ganga frá kaupum á honum. FH hefur verið með augun opin fyrir sóknarmanni í sumar þar sem Úlfur Ágúst Björnsson mun ekki klára tímabilið með liðinu vegna háskólanáms í Bandaríkjunum.
Það verður þriðja félag Patriks á Íslandi. Hann samdi við Keflavík árið 2022 og skoraði alls tólf mörk í Bestu deildinni sama ár, en skipti yfir í Breiðablik eftir tímabilið.
Fyrsta tímabil hans einkenndist af vonbrigðum eftir að hann sleit krossband í maí og var því ekki meira með það tímabilið. Á þessari leiktíð hefur hann samtals spilað 14 leiki í öllum keppnum en aðeins gert eitt mark.
Það er vonandi að Patrik finni sig á ný hjá FH-ingum, en Blikar eru mögulega að landa stórum bita. Árni Vilhjálmsson hefur verið orðaður við heimkomu og er líklegasti áfangastaður hans Breiðablik.
Árni spilaði síðast á Íslandi árið 2021 og þá með Blikum. Hann var annar markahæsti maður Pepsi Max deildarinnar með 11 mörk í 21 leik er Breiðablik hafnaði í öðru sæti, aðeins stigi á eftir Víkingum.
Athugasemdir