banner
   fim 27. október 2022 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvað gerir Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í framtíðinni?
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir.
Mynd: Getty Images
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur verið valin í danska U19 landsliðið fyrir verkefni sem fer fram áttunda til 14. nóvember.

Emilía er 17 ára gömul og spilar með Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni. Hún hefur komið við sögu í átta deildarleikjum á þessari leiktíð og skorað þrjú mörk.

Emilía á íslenskan föður og danska móður en hún á marga leiki að baki í yngri flokkum hér á landi með Breiðabliki, Stjörnunni og Val. Hún lék þá einn leik með Augnabliki í Lengjudeildinni sumarið 2020 þegar hún var 15 ára.

Emílía, sem er sóknarmaður, hefur verið valin í úrtakshópa hjá yngri landsliðum Íslands en er ekki með neina skráða yngri landsleiki.

Eftir að hún flutti til Danmerkur þá hefur hún leikið með yngri landsliðum Dana og núna er búið að velja hana í U19 landsliðið þegar hún er 17 ára.

Það er greinilega mjög efnilegur leikmaður þarna á ferðinni en samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá er ekki útilokað að hún muni velja að spila fyrir Ísland í framtíðinni.

Þetta er nokkuð svipað dæmi og hjá Amöndu Andradóttur sem spilaði með bæði yngri landsliðum Íslands og Noregs, en valdi að lokum Ísland þegar kom að A-landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner