Eftir frækinn sigur gegn Breiðabliki í síðustu umferð tapaði HK 3-2 fyrir Fram í kvöld. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var spurður að því hvort það hafi ekki verið vonbrigði að ná ekki að fylgja sigrinum gegn Blikum eftir?
Lestu um leikinn: Fram 3 - 2 HK
„Þetta var svekkjandi tap í kvöld, sama hvaða leikur var á undan. Fram komst í hættulega stöður og náði að nýta þær vel. Við hefðum getað skorað meira og unnið leikinn, það hefði getað farið þannig," sagði Ómar.
HK náði að jafna í 1-1 en mínútu síðar var Fram búið að ná forystunni aftur. Voru menn annars hugar?
„Við vorum nýbúnir að vinna boltann og spilum honum beint á þá. Við vorum í sóknarhug. Við töpuðum boltanum klaufalega frá okkur og vorum illa staðsettir þegar boltinn kemur inn í teiginn."
Það kemur núna smá skrítinn taktur á mótið og eins og Ómar talar um í viðtalinu þá er HK í raun að fara í lengra hlé núna en í landsleikjaglugganum.
„Þetta eru fimmtán dagar. Tilfinningin eftir þennan leik, og ég held að strákarnir séu sama sinnis, ég hefði viljað spila aftur sem fyrst."
Athugasemdir