Fyrrum landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir sneri aftur í markið hjá Val í gær þegar liðið vann 4-1 sigur gegn Keflavík í Bestu deild kvenna.
Sandra lagði hanskana á hilluna í mars á þessu ári eftir farsælan feril.
Í lok júní kom sú staða upp hjá Grindavík að markverðirnir voru meiddir eða frá vegna veikinda og samþykkti Sandra því að koma á neyðarláni frá Val. Sandra spilaði tvo leiki með Grindavík í Lengjudeildinni en fékk aftur félagaskipti sín í Val fyrir nokkru síðan.
Valur þurfti svo að fá inn öflugan markvörð til vera hluti af hópnum og ákvað Sandra að snúa aftur. Hún hafði verið á bekknum frá því hún sneri aftur, þangað til í gær.
„Af því að ég valdi hana. Það var eina ástæðan fyrir því," sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, þegar hann var spurður út í þá ákvörðun að byrja með Söndru í markinu.
Hin efnilega Fanney Inga Birkisdóttir, sem hefur heilt yfir átt flott sumar, var á bekknum í leiknum en hún er ekki að glíma við meiðsli. Valur er á toppi Bestu deildar kvenna og virðist vera að stinga af í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir