Barcelona hefur verið ákært vegna gruns um að hafa mútað fyrrum varaforseta dómarasambandsins á Spáni, Jose Maria Enriquez Negreira. Josep Maria Bartomeu og Sandro Rosell fyrrum forsetar Barcelona eru ásakaðir um þetta ásamt Negreira og syni hans Javier Enrique Romero.
Barca hefur áður verið ákært fyrir meinta íþrótta- og viðskiptaspillingu. Samkvæmt spænskum fjölmiðlum leitaði lögreglan í höfuðstöðvum dómara hjá spænska knattspyrnusambandinu (RFEF) í Madríd á fimmtudag að skjölum sem tengjast málinu.
Saksóknarar lögðu fram kvörtun í mars síðastliðnum sem var samþykkt og fór rannsókn af stað.
Barcelona borgaði fyrirtækjum Negreira yfir 7 milljónir evra yfir 17 ára tímabil frá 2001-2018 þegar hann var vara forseti eftir að hafa verið sjálfur dómari.
Joan Laporta núverandi forseti félagsins hafnar því að þessar greiðslur hafi verið greiddar í þeim tilgangi að múta dómurum.
Félagið gæti fengið árs bann í Meistaradeildinni.