Jón Vignir frá fram á næsta ár

Það átti sér stað óhugnanlegt atvik í Vogum fyrir einni og hálfri viku síðan þegar Jón Vignir Pétursson, fyrirliði Selfoss, meiddist illa. Atvikið átti sér stað í leik Grindavíkur og Selfoss og var Jón Vignir fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Jón Vignir fótbrotnaði og fór úr ökklalið. Hann fór í aðgerð vegna meiðslanna fyrir rúmri viku síðan.
Jón Vignir fótbrotnaði og fór úr ökklalið. Hann fór í aðgerð vegna meiðslanna fyrir rúmri viku síðan.
„Þetta lítur bara ágætlega út þannig séð. Læknarnir löguðu fibula beinið, sem er hliðina á sköflungnum, löguðu það með plötu og sex skrúfum. Svo var sett band á milli sem kemur í stað liðbanda á meðan þau gróa. Læknarnir voru mjög sáttir með aðgerðina og bjartsýnir á endurhæfinguna."
„Ég hitti lækna aftur í næstu viku og þá kemur kannski betur í ljós með endurkomuna, en fyrst var allavega talað um 6-9 mánuði til að verða nálægt 100% klár fyrir æfingar og leiki. En eftir 2-3 mánuði ætti ég að geta farið að hjóla, skokka og svoleiðis."
Jón Vignir fór upp í skallaeinvígi, lendir í samstuði í loftinu, lendir illa og ökklinn fór úr lið, bein brotnaði og liðbönd sködduðust. Jón Vignir er ánægður með viðbrögð manna á staðnum.
„Mjög ánægður, ég sjálfur var í miklum sársauka og ekki í miklu ástandi til að átta mig á hlutunum. En mér leið eins vel og hægt var og á fólkið sem var að standa í þessu, að aðstoða mig, mikið hrós skilið og þakkir frá mér."
Jón Vignir er í venjulegu gipsi en fer í göngugips eftir rúma viku. Framundan er þessi heimsókn til læknis í næstu viku og svo endurhæfing næstu mánuðina. „Ég horfi bara í að byrja endurhæfinguna sem fyrst og styrkja þá hluti sem ég get og má styrkja. Það er erfitt að segja núna einhvern tímapunkt en ég stefni í byrjun nýs árs að vera byrjaður að æfa í contact og svo hægt og rólega að komast í leikform."
Hvernig verður fyrir Jón Vigni að geta ekki spilað meira á tímabilinu?
„Það verður erfitt að geta ekki hjálpað til inni á vellinum, en ég mun vera til staðar fyrir menn og mæta á æfingar og leiki."
Samningur hans við Selfoss rennur út í lok tímabils. Veit hann eitthvað um framtíðina?
„Já, það stemmir, ég er að klára samninginn minn núna eftir tímabilið .Það er erfitt fyrir mig að segja eins og er og veit ég litið hvað gerist á næstu mánuðum, það þarf bara að koma i ljós."
„Samtalið við Selfoss hefur verið virkt, en engar formlegar viðræður komnar í gang eins og er. Það kemur bara í ljós á næstu mánuðum hvað gerist í þessum málum og hvernig hlutirnir munu þróast. Ég ætla ekki að flýta mér að taka ákvörðun," segir Jón Vignir.
Framundan hjá Selfossi er barátta í neðri hluta Lengjudeildarinnar. Næsti leikur liðsins er leikur gegn ÍR á heimavelli annað kvöld.
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Njarðvík | 15 | 8 | 7 | 0 | 36 - 14 | +22 | 31 |
2. ÍR | 14 | 8 | 5 | 1 | 26 - 12 | +14 | 29 |
3. Þróttur R. | 15 | 8 | 4 | 3 | 28 - 23 | +5 | 28 |
4. Þór | 15 | 8 | 3 | 4 | 34 - 22 | +12 | 27 |
5. HK | 15 | 8 | 3 | 4 | 26 - 18 | +8 | 27 |
6. Keflavík | 14 | 6 | 4 | 4 | 32 - 24 | +8 | 22 |
7. Völsungur | 14 | 5 | 2 | 7 | 24 - 30 | -6 | 17 |
8. Grindavík | 15 | 4 | 2 | 9 | 29 - 42 | -13 | 14 |
9. Selfoss | 14 | 4 | 1 | 9 | 15 - 29 | -14 | 13 |
10. Fylkir | 15 | 2 | 5 | 8 | 20 - 26 | -6 | 11 |
11. Fjölnir | 14 | 2 | 4 | 8 | 21 - 35 | -14 | 10 |
12. Leiknir R. | 14 | 2 | 4 | 8 | 13 - 29 | -16 | 10 |
Athugasemdir