
„Þetta var solid leikur hjá Þórs liðinu í dag. Við héldum ró okkar og spiluðum boltanum vel," sagði Palli Gísla þjálfari Þórs eftir 3-0 sigur á Þrótti R. á Þórsvellinum í dag.
Lestu um leikinn: Þór 3 - 0 Þróttur R.
„Við fundum svæði til að spila í sem að sköpuðu færi og við nýtum eitthvað af þeim. Vissulega hefði mátt ganga betur að nýta færin en heildar frammistaðan góð hjá liðinu í dag."
Þór skoraði þegar aðeins rétt rúmlega ein mínúta var búinn af leiknum en þá braut Atli á Fannari innan teig og Alvaro fór á punktinn.
„Við skorum í upphafi og svo missa þeir mann út af sem virðist vera orðið algilt á móti okkur. Það virðist vera eitthvað plan að ná að taka fast á okkur og jafnvel brjóta illa á mönnum þannig að það er engin tilviljun að liðin eru að fá mikið af spjöldum á móti okkur. Þar sem við erum aggresívari og með leikmenn sem eru árásargjarnir þannig að vissulega gott að fá mark og vita þá að við erum búnir að skora. Við reyndum og rembust í Grindavík."
Þór skoraði þrjú í dag en mikið var rætt um það í vikunni að Þór ætti erfitt með að vera í yfirtölu. Þróttur R. missti mann af velli um miðjan fyrri hálfleikinn.
„Við allavega skoruðum mörk. Ég held við höfum ekki fengið færri færi í dag en í síðasta leik, þetta er stundum stöngin inn og stundum stöngin út. Mér er slétt sama hvort það eru 10,9 eða 11 leikmenn inn á svo framanlega sem við erum að hugsa um okkur sjálfa fyrst og fremst."
Jóhann Helgi og Elmar fóru meiddir af velli. Jóhann Helgi sem hefur fengið mörg höfuðhögg í boltanum fékk eitt slíkt snemma leiks.
„Þetta er náttúrulega erfitt. Sérstaklega með Jóa sem á sögu í þessu. Það er náttúrulega verið að skoða þetta reglulega því hann er búinn að fá ítrekað höfuðhögg og það var enginn spurning að hann færi út af í dag en svo veit ég ekki með framhaldið. Elmar fékk slæmt högg og verður kannski frá í einhverja daga en ég held þetta sé ekkert alvarlegt og við höfum fínan mannskap og erum að rótera í þessu hjá okkur. Vonandi verða menn tilbúnir að standa ef einhver dettur út."
Þór er í 5 sæti með 20 stig. Fjórum stigum frá öðru sætinu.
„Mótið er rúmlega hálfnað og við erum í eltingarleik. Við eigum sár töpuð stig finnst mér eftir fyrri umferðina sem ég myndi vilja hafa í vasanum en þau komu ekki þannig við erum á eftir. Við erum svo sem háðir öðrum úrslitum ef við ætlum að fara að horfa á lokaniðurstöðuna rétt fyrir jól."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir