Andlegur styrkur að halda alltaf áfram að pressa
„Það sem ég tek mest út úr leiknum, það sem við töluðum um fyrir leik og í hálfleik, að við héldum áfram eftir að við komumst yfir, héldum áfram að pressa þá, héldum áfram að negla þá upp við þeirra teig, því ég held að við séum ekkert svakalega góðir ef við föllum niður. Mér finnst sigurinn vinnast á því að hamra á þeim aftur og aftur," segir Oliver Sigurjónsson við Fótbolta.net.
Hann ræddi um úrslitaleikinn við Víking sem Breiðablik vann og tryggði sér með því Íslandsmeistaratitilinn.
Hann ræddi um úrslitaleikinn við Víking sem Breiðablik vann og tryggði sér með því Íslandsmeistaratitilinn.
„Það sést í fjölda brota, ekki það að þau skilgreini hvort þú sért harður eða ekki, en það er bara svo augljóst að við vorum ofan í baráttunni. Ef þeir komust framhjá okkur þá var bara brotið á þeim og ekkert groddalega, heldur bara smá, og svo hélt leikurinn áfram."
„Við vorum búnir að ræða að við erum langbestir í því og við ætluðum okkur að halda pressunni út allan leikinn, sama hvað. Ef við föllum neðar þá kemst hitt liðið auðvitað ofar á völlinn og það er bara ekkert gott. Mér finnst andlegi styrkurinn að halda endalaust áfram að pönkast í þeim hafa unnið þennan leik."
Oliver var spurður út í aðdraganda leiksins. Voru einhver ummæli eða umræða sem leikmannahópurinn nýtti til að hvetja sig áfram?
„Árið 2022 nýttum við okkur mikið ummæli þar sem einhver Víkingur (Erlingur Agnarsson) sagði að við brotnuðum alltaf þegar mest á reyndi, sagði það eftir undanúrslitaleikinn í bikarnum. Í ár fannst mér leikmannahópurinn ekki með neina utanaðkomandi hvatningu. Við vorum í keppni við sjálfa okkur, við ætluðum að vinna á okkar forsendum og ræddum hvernig við vildum gera þetta. Því finnst mér þetta ennþá betra einhvern veginn."
„Mér finnst stundum þessi rígur pirrandi, finnst asnalegt þegar fólk mótiverar sig til þess að einhver annar tapi. Mér finnst við hafa náð að snúa því, við fórum áfram fyrir okkur, hvatinn var ekki að einhver annar myndi tapi. Alla vikuna var einbeitingin á því sem við gætum stjórnað."
Fyndið frekar en hvatning
Á leikdegi birtist frétt á Fótbolti.net að Víkingar hótuðu að kæra Breiðablik vegna þess að einhverjir stuðningsmenn máluðu pallettur í Víkinni grænar. Kveikti það eitthvað í ykkur?
„Nei, okkur fannst að eiginlega bara fyndið. Svo heyrði maður eftir leik að það voru einhver rifrildi bakvið tjöldin, það kom ekkert inn í leikmannahópinn. Auðvitað var þetta ekkert vel gert, en meira fyndið heldur en eitthvað alvarlegt fannst okkur. Við notuðum það samt ekki sem neina hvatningu," segir Oliver.
Miðjumaðurinn ræddi nánar við Fótbolta.net, fór yfir tímabilið í heild sinni og sína framtíð en hann er að renna út á samningi hjá Breiðabliki. Seinni hluti viðtalsins verður birtur seinna í dag.
Athugasemdir