
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var svekktur að tapa gegn Blikum á Kópavogsvelli í kvöld og þar með falla úr leik í Mjólkurbikarnum.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 HK
„Segi það nú ekki, við áttum ekkert mikið meira skilið. Við áttum skilið að vera 1-0 undir í hálfleik en þegar staðan er orðin 3-0 fannst mér við ekki eiga það skilið.'' Sagði Brynjar Björn aðspurður að því hvort þeir hafi átt eitthvað meira skilið úr þessum leik.
HK er með 5 stig eftir 6 leiki í Pepsi deildinni og féllu út úr bikarnum í 16 liða úrslitum, hefði Brynjar samþykkt þá stöðu ef honum hefði staðið það til boða fyrir mót?
„Nei við komum hingað til að vinna og vera áfram í bikarnum, en það gekk ekki eftir. Við eigum núna deildina eftir og það er búið að fara mikil orka í fyrstu leikina og við eigum einn leik eftir fyrir pásu, við verðum að fá góð úrslit þar.''
Er Brynjar ekki sáttur með þau 5 stig sem þeir hafa fengið?
„Ef og hefði, við hefðum getað verið með fleiri stig og ég myndi vilja vera með fleiri stig, mér finnst það raunhæft.''
Hversu góðir eru Blikarnir?
„Þeir eru bara ágætir, nýta færin sín vel.'' Sagði Brynjar Björn hlægjandi.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan, en þar talar Brynjar Björn meðal annars um Andra Jónasson, spjaldið á Kára Péturs og dómgæsluna í heild.
Athugasemdir