
Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, gaf kost á sér í stutt viðtal í dag. Ísland fær Moldóvu í heimsókn í undankeppni EM 2020 eftir viku.
Undirbúningur landsliðsins fyrir leikinn verður erfiður þar sem Moldóvar eru nýlega búnir að skipta um landsliðsþjálfara, rétt eins og gerðist hjá Albaníu fyrr í undankeppninni.
„Það er alltaf svoldið óþægilegt að lenda í þessu, þetta breytir kannski ekki miklu hjá okkur en samt sem áður svekkjandi að við vorum komnir með skýra mynd og vissum hvað þeir voru að fara að gera. Núna er smá óvissa en þá fara menn upp á tærnar," sagði Freyr um þjálfaraskiptin.
„Ég held að leikmannabreytingarnar verði ekki miklar en taktískt getur hann breytt miklu. Þeir voru að reyna hluti sem ég er ekkert viss um að þessi þjálfari reyni."
Íslenska landsliðinu gekk herfilega í æfingaleikjum eftir undankeppni HM 2018 en liðið virðist vera búið að finna taktinn á nýjan leik.
„Við erum búnir að byggja ákveðið momentum með okkur. Það var geggjuð stemning hérna á Laugardalsvelli í leikjunum, maður fann að liðið og þjóðin voru komin til baka. Maður fann sjálfstraustið og maður fann þessa dýnamík sem við viljum standa fyrir.
„Við teljum okkur nægilega sterka til að ná í sex stig í þessum glugga og við stefnum allir ótrauðir að því."
Athugasemdir