Þýski vængmaðurinn Kevin Schade gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu er Brentford vann 4-1 sigur á nýliðum Leicester City í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Justin Kluivert varð þá fyrsti leikmaðurinn til að skora vítaspyrnuþrennu er Bournemouth sigraði Wolves, 4-2.
Schade, sem er 23 ára gamall, hafði ekki skorað deildarmark á tímabilinu fyrir leikinn í dag, en vélin fór að malla um leið og fyrsta markið kom.
Leicester fór betur af stað. Jamie Vardy var sendur í gegn vinstra megin, sem náði að hrista Ethan Pinnock auðveldlega af sér áður en hann lagði boltann til hliðar á Facundo Buonanotte sem skoraði af stuttu færi.
Eftir það hrökk Brentford í gang. Schade lagði upp mark fyrir Yoane Wissa á 25. mínútu.
Schade fékk sendingu vinstra megin og setti hann í fyrsta inn á teiginn á Wissa sem var ekki í neinum vandræðum með að leggja boltann í netið.
Fimm mínútum síðar skoraði Schade fyrsta deildarmark sitt er Bryan Mbeumo átti misheppnaða sendingu sem fór af varnarmanni og til þýska leikmannsins sem skaut boltanum í gegnum varnarlausa leikmenn Leicester og í markið.
Mikill léttir fyrir Schade og opnuðust flóðgáttirnar í kjölfarið en hann gerði annað mark sitt seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir sendingu Mikkel Damsgaard. Schade fékk boltann vinstra megin í teignum og náði að afgreiða boltann snyrtilega í stöng og inn.
Hálftíma fyrir leikslok fullkomnaði hann þrennu sína eftir enn eina stórkostlegu sendinguna. Nathan Collins sendi boltann á milli varnarmanna Leicester og á Schade sem lagði boltann framhjá Mads Hermansen.
Mögnuð frammistaða hjá Schade sem var með þrennu og eina stoðsendingu.
Brentford er komið upp í 8. sæti deildarinnar með 20 stig en Leicester er áfram í 16. sæti með 10 stig.
Crystal Palace og Newcastle United gerðu dramatískt 1-1 jafntefli á Selhurst Park.
Newcastle komst yfir eftir vel útfærða aukaspyrnu sem endaði hjá Anthony Gordon hægra megin í teignum. Hann kom boltanum fyrir markið og varð Guehi fyrir því óláni að stýra boltanum í eigið net.
Palace átti fjölmargar tilraunir í leiknum og fyrir rest kom liðið boltanum í netið. Palace spilaði boltanum á milli sín fyrir utan teig Newcastle áður en Guehi lyfti frábærum bolta á fjær á Daniel Munoz sem stangaði honum í netið.
Dramatískt jöfnunarmark. Newcastle skapaði sér afar lítið í leiknum og alveg óhætt að segja að jafntefli hafi verið meira en sanngjarnt en engu að síður svekkjandi að fá á sig mark svona seint í uppbótartíma.
Newcastle er í 10. sæti með 19 stig en Palace í 17. sæti með 9 stig.
Chris Wood skoraði sigurmark Nottingham Forest í 1-0 sigrinum á Ipswich Town. Markið gerði hann úr vítaspyrnu á 48. mínútu en það var níunda deildarmark hans á tímabilinu.
Forest er í 6. sæti með 22 stig en Ipswich í fallsæti með 9 stig.
Bournemouth vann þá Wolves, 4-2, í fjörugum leik í Wolverhampton.
Það má segja að Bournemouth hafi gert út um leikinn í fyrri hálfleik. Justin Kluivert skoraði úr vítaspyrnu á 3. mínútu áður en Jörgen Strand Larsen jafnaði metin.
Ungverski bakvörðurinn Milos Kerkez skoraði annað mark Bournemouth á 8. mínútu áður en Kluivert gerði annað mark sitt úr vítaspyrnu á 18. mínútu. Fjögur mörk á fyrstu átján mínútum leiksins!
Strand Larsen kom Wolves aftur inn í leikinn á 69. mínútu eftir stoðsendingu Goncalo Guedes en aðeins fimm mínútum síðar fullkomnaði Kluivert vítaspyrnuþrennu sína og fyrsta vítaspyrnuþrennan í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Góður sigur hjá Bournemouth sem er með 18 stig í 11. sæti en Wolves í 18. sæti með 9 stig.
Brentford 4 - 1 Leicester City
0-1 Facundo Buonanotte ('21 )
1-1 Yoane Wissa ('25 )
2-1 Kevin Schade ('29 )
3-1 Kevin Schade ('45 )
4-1 Kevin Schade ('59 )
Crystal Palace 1 - 1 Newcastle
0-1 Marc Guehi ('53 , sjálfsmark)
1-1 Daniel Munoz ('90 )
Nott. Forest 1 - 0 Ipswich Town
1-0 Chris Wood ('49 , víti)
Wolves 2 - 4 Bournemouth
0-1 Justin Kluivert ('3 , víti)
1-1 Jorgen Strand Larsen ('5 )
1-2 Milos Kerkez ('8 )
1-3 Justin Kluivert ('18 , víti)
2-3 Jorgen Strand Larsen ('69 )
2-4 Justin Kluivert ('74 , víti)
Athugasemdir