Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   sun 31. maí 2020 21:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Allt önnur ára yfir FH-liðinu" - Bætist Emil í hópinn?
FH vann Fram 2-0 í æfingaleik í gær.
FH vann Fram 2-0 í æfingaleik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Hallfreðsson og Pétur Viðarsson.
Emil Hallfreðsson og Pétur Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Talið barst að FH í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 í gær. FH-ingar styrktu sig í síðustu viku með því að fá Pétur Viðarsson til að taka skóna af hillunni og með því að fá Hörð Inga Gunnarsson aftur heim í Hafnarfjörðinn frá ÍA.

„Þeir eru heldur betur að bæta í liðið," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Hversu hátt finnst ykkur að þessi tveir leikmenn ýti FH og hversu nálægt því eru þeir núna að berjast í 22 umferðir?"

„Ég held að þetta lyfti öllu liðinu upp á tærnar," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Pétur kemur með ákveðna sigurhefð, ég er sannfærður um að æfingakrafturinn sé allt annað við að fá hann inn," sagði Benedikt Bóas Hinriksson.

„Eitt með FH-liðið. Það var kannski ekki að spila neinn frábæran fótbolta lengi vel á síðustu leiktíð. Stuðningsmenn þeirra voru margir hverjir kvekktir yfir hvað þetta var hægt og svona," sagði Tómas Þór.

„Þegar þú horfir aftur á tímabilið hjá FH í fyrra þá lenda þeir í þriðja sæti, þeir skora 40 mörk sem er þriðja til fjórða besta í deildinni. Þeir skoruðu fullt af mörkum, en í 22 leikjum héldu þeir þrisvar hreinu. Þeir fá á sig 36 mörk, tvö lið sem fengu á sig meira - ÍBV og Fylkir. Pétur Viðarsson var vissulega hluti af því, en hann er góður miðvörður og þeir fá meiri breidd með honum. Þeir fá miklu betri hægri bakvörð, Pétur kominn aftur með eitthvað að sanna. Þeir fengu 37 stig á +4 í markatölu í fyrra, þeir hljóta að vera ansi líklegri núna."

Elvar Geir tók undir þetta og segir að allt önnur ára sér yfir FH-liðinu núna en fyrir nokkrum mánuðum þegar umræðan snerist mikið um fjárhagsvandræði og annað slíkt. „Þeir eru talsvert líklegri. Það er allt önnur ára yfir FH-liðinu núna. Þeir eru senda allt öðruvísi skilaboð út í kosmósið en þeir gerðu í vetur."

Þess má geta að FH varð Íslandsmeistari síðast árið 2016 og því hlýtur að vera komin krafa í Kaplakrika á titilinn stóra.

Hvað með Emil Hallfreðsson?
Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson hefur undanfarnar vikur verið að æfa með FH og spilaði hann, og skoraði, í æfingaleik gegn Fram í gær. Hinn 35 ára gamli Emil er samningsbundinn Padova í C-deildinni á Ítalíu þangað til í júní. Hann gæti spilað í Pepsi Max-deildinni í sumar.

„Hann veit það ekki sjálfur. Það skýrist ekki fyrr en 5. júní. Þá kemur í ljós hvort deildin á Ítalíu haldi áfram eða ekki," sagði Hafliði Breiðfjörð í útvarpsþættinum í gær.

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, vonast því eflaust til að keppni í neðri deildunum á Ítalíu verði blásin af. Það myndi gera rosalega mikið fyrir FH að hafa Emil í liðinu í sumar.

Sjá einnig:
„Úff hvað Emil Hallfreðsson er góður í fótbolta"

Hlusta má á umræðuna úr útvarpsþættinum í gær hér að neðan.
Pepsi Max hringborð - Umræður eftir æfingaleikjaviku
Athugasemdir
banner
banner