Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mið 31. júlí 2024 15:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sex leikmenn sem gætu ráðið úrslitum í risaslagnum
Birta Georgsdóttir og Fanney Inga.
Birta Georgsdóttir og Fanney Inga.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Heiða Ragney og Katie Cousins.
Heiða Ragney og Katie Cousins.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ásta Eir Árnadóttir.
Ásta Eir Árnadóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jasmín Erla Ingadóttir.
Jasmín Erla Ingadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er sannkallaður risaslagur í Bestu deild kvenna í kvöld. Valur tekur á móti Breiðabliki á Hlíðarenda.

Fyrir leikinn eru liðin tvö jöfn á toppnum með 39 stig. Þau eru langefst og leikurinn í kvöld kemur til með að hafa mikil áhrif á titilbaráttuna.

Það vantar öfluga pósta í bæði lið. Agla María Albertsdóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir eru báðar frá vegna meiðsla hjá Blikum og þá er Anna Björk Kristjánsdóttir ekkert meira með Val í sumar þar sem hún er ólétt. Amanda Andradóttir er þá nýfarin frá Val í atvinnumennsku.

Að mati Fótbolta.net munu þessir sex leikmenn spila lykilhlutverk fyrir lið sín í kvöld. Þessir leikmenn gætu ráðið úrslitunum; þrír leikmenn úr hvoru liði.

Valur
Fanney Inga Birkisdóttir
Í markinu hjá Val er aðalmarkvörður landsliðsins, Fanney Inga. Hún fékk stöðu aðalmarkvarðar hjá Val í fyrra og hefur tekið stór skref á skömmum tíma síðan þá. Maður á í raun erfitt með að trúa öðru en að yfirstandandi tímabil verði hennar síðasta á Íslandi. Hún gæti þurft að taka nokkrar mikilvægar vörslur í kvöld og það er hægt að treysta á hana.

Katie Cousins
Magnaður miðjumaður sem tók skrefið úr Þrótti í Val fyrir tímabilið sem er núna í gangi. Er líklega lágvaxnasti leikmaður deildarinnar en hún spilar eins og hún sé mikið stærri. Hún vinnur nánast öll skallaeinvígi og er gríðarlega dugleg. Hún er líka bara frábær í fótbolta og með mikil gæði í öllu sem hún gerir. Hún og Berglind Rós hafa myndað frábært teymi á miðsvæðinu hjá Val í sumar.

Jasmín Erla Ingadóttir
Var svolítið týnd í Stjörnunni í fyrra en hún skipti yfir í Val fyrir þetta tímabil og hefur fundið sig aftur. Leikmaður sem getur galdrað fram hluti úr engu. Hefur verið að spila mikið fremst á miðju hjá Val í sumar og er þeirra markahæsti leikmaður. Hefur tvisvar sinnum verið valin leikmaður umferðarinnar í sumar og hún hefði ekkert á móti því að taka þau verðlaun í þriðja sinn eftir leikinn í kvöld.

Breiðablik
Ásta Eir Árnadóttir
Hefur breyst mikið sem leikmaður í sumar. Hún fór úr því að vera fremur sóknarsinnaður bakvörður í það að vera miðvörður. Hún hefur verið algjört lykilpúsl í mögnuðum varnarleik Blika í sumar en Ásta verið virkilega stöðug í sínum leik. Hún hefur verið fljót að læra nýja stöðu og gestirnir úr Kópavogi þurfa að treysta á að hún eigi góðan leik í kvöld. Hún er mikill leiðtogi í Blikaliðinu.

Heiða Ragney Viðarsdóttir
Annað lykilpúsl í frábærum varnarleik Blika er Heiða Ragney. Ótrúlega vanmetin í því sem hún gerir, en hún er algjörlega frábær í því að brjóta upp sóknir andstæðingana. Kom til Breiðabliks í vetur frá Stjörnunni og hefur tekið góð skref fram á við í Kópavoginum. Það verður gaman að fylgjast með baráttu hennar við Jasmín og aðra miðjumenn Vals. Klárlega ein sú besta í deildinni í sumar.

Birta Georgsdóttir
Blikar eru með öfluga sóknarlínu en í fjarveru Öglu Maríu, þá þarf Birta að stíga upp. Hún getur komið með mikið að borðinu, bæði mörk og stoðsendingar. Hún er alltaf hættuleg í kringum markið og er klárlega leikmaður sem getur ráðið úrslitum í svona stórum leik eins og í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner