
'Danskir fjölmiðlar vilja meina að við eigum ekki að eiga séns, þannig það kom mér ekkert á óvart að þeir hökkuðu Silkeborg í sig'
Danska pressan lét Silkeborg finna fyrir því eftir 1-1 jafntefli gegn KA í síðustu viku. Það var fyrri leikur liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Seinni leikurinn fer fram klukkan 18:00 á Greifavellinum í kvöld.
Dönsku miðlarnir voru alls ekki hrifnir af því að Silkeborg næði ekki að vinna íslensku bikarmeistaranna, en Silkeborg var talið mun sigurstranglegra fyrir leikinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði jöfnunarmark undir lok leiks fyrir KA. Gengi dönsku liðanna er ekki nægilega gott að mati danskra miðla, FCK hefur gert vel i forkeppni Meistaradeildarinnar en Bröndby, Midtjylland og Silkeborg þurfa að hafa fyrir því að komast áfram í sínum einvígum í dag.
Dönsku miðlarnir voru alls ekki hrifnir af því að Silkeborg næði ekki að vinna íslensku bikarmeistaranna, en Silkeborg var talið mun sigurstranglegra fyrir leikinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði jöfnunarmark undir lok leiks fyrir KA. Gengi dönsku liðanna er ekki nægilega gott að mati danskra miðla, FCK hefur gert vel i forkeppni Meistaradeildarinnar en Bröndby, Midtjylland og Silkeborg þurfa að hafa fyrir því að komast áfram í sínum einvígum í dag.
Fótbolti.net ræddi við þjálfara og fyrirliða Silkeborg um gagnrýni dönsku miðlanna og Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var einnig spurður út í gagnrýnina á Silkeborg.
Kent Nielsen, þjálfari Silkeborg
„Við erum ekki stórt félag, í Danmörku er búist við því að við röltum í gegnum þetta, en við vitum betur."
„Nei, það var ekki óvænt að við vorum gagnrýndir. Í fjölmiðlum, og sérstaklega á samfélagsmiðlum, snýst þetta mikið um tilfinningar, þetta þarf ekki að vera sanngjarnt. Það hjálpar þér ekki að blanda þér í það, þú þarft að halda einbeitingu, þarft að vera raunsær þegar þú horfir á leiki, frekar en að tala bara út frá tilfinningum. Það var gagnrýni, en það er hluti af starfi þjálfara og leikmanna að komast yfir það og láta það ekki hafa áhrif á sig," sagði Kent Nielsen sem er þjálfari Silkeborg.
Nicolai Larsen, fyrirliði Silkeborg
„Nei, það kom ekki á óvart því danskir fjölmiðlar eru mjög gagnrýnir," sagði Nicolai Larsen og hló. „Þeir eru það alltaf. Ég held að það hafi komið dönskum fjölmiðlum mjög á óvart hversu gott KA liðið er, en það kom okkur ekki á óvart. Danskir miðlar eru mjög gagnrýnir á liðið okkar og það er allt í lagi, við sjáum þetta á annan hátt, vitum að þessir Evrópuleikir eru mjög erfiðir og eiginlega alltaf mjög jafnir leikir. Við þurfum að sýna þessi auka gæði sem við vitum að við búum yfir, en það er alltaf erfitt að ná að sýna það í þessum Evrópuleikjum," sagði fyrirliði danska liðsins.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA
„Tímabilið er að byrja hjá þeim og þeir eru búnir að haltra; töpuðu fyrsta deildarleiknum, gerðu jafntefli við okkur sem var ekki jákvætt og töpuðu svo næsta leik, þannig það er komin alvöru pressa á þá. Þeir eru með nokkra unga leikmenn sem ég held að munu finna fyrir því ef hlutirnir ganga ekki upp."
„Það var viðbúið að þeir yrðu gagnrýndir, ég held að danskir fjölmiðlar beri ekkert rosalega mikla virðingu fyrir íslenskum fótbolta, ennþá, en ég held að það muni aðeins breytast þegar menn líta á og sjá hvað liðin hafa gert í Evrópu undanfarið; Víkingur og Breiðablik sem dæmi, og við fyrir tveimur árum. Íslenski fótboltinn er að batna og ég tel okkur eiga séns á móti þessum liðum ef við spilum rétt úr spilunum. Danskir fjölmiðlar vilja meina að við eigum ekki að eiga séns, þannig það kom mér ekkert á óvart að þeir hökkuðu Silkeborg í sig. Það er bara frábært fyrir okkur, gefur okkur blóð á tennurnar að það sé talað niður til okkar og íslensks fótbolta."
„Ég held að við höfum sýnt það úti að við höfðum rétt fyrir okkur; við eigum séns ef allt gengur upp hjá okkur," sagði Haddi í gær.
Athugasemdir