Danskir fjölmiðlar fara engum silkihönskum um frammistöðu Silkeborg í 1-1 jafnteflinu gegn KA í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.
Lestu um leikinn: Silkeborg 1 - 1 KA
KA kom sér í frábæra stöðu með marki Hallgríms Mar Steingrímssonar í uppbótartíma síðari hálfleiks og er allt jafnt fyrir síðari leikinn sem er spilaður á Greifavelli.
Ekstrabladet segir eftir leikinn að Silkeborg hafi gert sig að fíflum með frammistöðu sinni gegn KA, liði sem hefur gengið í gegnum erfiðleika í Bestu deildinni á tímabilinu.
Þá talar Tipsbladet um „algert fíaskó“ á meðan BT segir KA hafa tekist að særa Silkeborg, sem var með ágætis tök á leiknum framan af.
Sérfræðingarnir Benjamin Leander og Jonas Schwartz buðu upp á aðeins meiri hroka í sínum færslum.
„Farsi af epískri stærðargráðu að Silkeborg skíti yfir dönsku stigin (e. coefficient) hjá UEFA með því að gera 1-1 jafntefli við fallbaráttulið sem er í mesta basli með að halda sæti sínu í efstu deild. Núna mætir liðið á grasvöll á Íslandi í seinni leiknum og alvöru áhætta á einum stærsta skandal á síðari árum,“ sagði Leander sem var hins vegar ekki alveg meðvitaður um að KA menn spila á gervigrasinu á Greifavelli.
Schwartz sagði á meðan frammistöðu Silkeborg aumkunarverða.
„Það er algerlega aumkunarvert að Silkeborg nái aðeins í 1-1 jafnteflinu á heimavelli gegn liði sem er í 10. sæti á Íslandi. Skammarlegt. Danski fótboltinn þarf dönsk lið í Evrópu til þess að skila alvöru frammistöðu, ekki þessa skelfilega framlag sem Silkeborg bauð upp á í kvöld,“ sagði Schwartz á X.
Seinni leikurinn fer eins og áður kom fram á Greifavelli á Akureyri en leikurinn er settur á fimmtudaginn 31. júlí klukkan 18:00.
Athugasemdir