Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 31. október 2024 16:08
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tiago yfirgefur Fram (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram tilkynnti rétt í þessu að miðjumaðurinn Tiago Fernandes yrði ekki áfram hjá félaginu. Miðjumaðurinn kom fyrst til Fram árið 2018 og var í tvö tímabil áður en hann söðlaði um. Hann lék með Grindavík 2021 en sneri aftur í Fram fyrir tímabilið 2022 og átti þá frábært tímabil.

Hann raðaði inn stoðsendingum í endurkomu Framara í efstu deild og vakti athygli annarra félaga. Hann var m.a. orðaður við bæði Breiðablik og Val.

Í sumar var hann í varnarsinnaðra hlutverki, beið meira til baka sem aftasti miðjumaður, lék 22 leiki og lagði upp þrjú mörk. Hann er 29 ára Portúgali sem uppalinn er hjá Sporting. Samningur hans við Fram er að renna út og tilkynnti félagið í dag að hann yrði ekki endurnýjaður.

Tilkynning Fram
Ljóst er að Tiago Fernandes verður ekki leikmaður Fram á næsta tímabili og mun hann róa á önnur mið.

Tiago hefur eytt miklum tíma í bláu treyjunni og höfum við öll sem komum að félaginu fengið að njóta töfra hans með boltann. Því miður skilja nú leiðir og viljum við þakka Tiago fyrir gífurlega vel unnin störf í gegnum tíðina og óskum við honum velfarnaðar í næsta verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur.

Á tíma hans hjá Fram spilaði hann 138 leiki og skoraði 14 mörk. Það félag sem mun næst njóta góðs af kröftum Tiago er afar heppið.

Dyrnar í Úlfarsárdal eru alltaf opnar fyrir þér Tiago!
Athugasemdir
banner
banner
banner