Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   lau 28. janúar 2012 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Birna Berg: Eftir þessa tilkynningu dofnaði áhuginn ósjálfrátt
Markvörðurinn Birna Berg Haraldsdóttir leikur ekki fótbolta á árinu eftir að hafa meiðst illa í leik með handboltaliði Fram gegn Val fyrir hálfum mánuði síðan. Í viðtali við Fótbolta.net í dag ræðir hún meiðslin, útskúfun úr landsliðum í fótbolta vegna handboltaiðkunar og minnkandi áhuga á íþróttinni vegna þess.

Vissi strax að ég væri með slitin krossbönd
,,Ég var að keppa með Fram í handbolta á móti Val 14. janúar síðast liðinn og um miðjan seinni hálfleik stekk ég upp og þá er ýtt á mig í loftinu, við það missi ég jafnvægi og lendi í einhvers konar yfirréttu á hnénu," sagði Birna við Fótbolta.net um aðdraganda meiðslanna.

,,Ég vissi strax að ég væri með slitin krossbönd en það var bara spurning með hvort að allt hitt í hnénu hefði farið líka. Tveimur dögum seinna fékk ég það staðfest að ég hefði slitið fremra krossband og rifið liðþófa auk þess hafði innra liðband trosnað eða tognað og beinmar myndast. Því væri ljóst að ég myndi ekki spila handbolta eða fótbolta meira næstu 9-12 mánuðina."

Grét stanslaust og var í fýlu allan daginn
Birna er 18 ára gömul og hefur reynt að spila á fullu í handbolta á veturna og fótbolta á sumrin. Hún var í september valin í A-landsliðið í handbolta og fór svo með liðinu á Heimsmeistaramótið í Brasilíu í desember. Hún segir að það hafi verið mikil vonbrigði að fá að vita hversu slæm meiðslin eru.

,,Ég held ég hafi aldrei verið jafn svekkt á ævinni minni og þegar ég fékk þessi tíðindi. Ég var komin á gott ról í handboltanum, komin inní A landsliðið og spilaði miklu stærra hlutverk í félagsliði en áður," sagði Birna.

,,Fyrstu dagarnir eftir á voru ótrúlega erfiðir, ég grét stanslaust og var í fýlu allan daginn en sem betur fer á ég frábæra fjölskyldu, vini og vandamenn sem eru tilbúin að gera allt fyrir mig og eru búin að hjálpa mér ótrúlega mikið þessar fyrstu vikur."

,,Svo skiptir líka mjög miklu máli fyrir mig að vera jákvæð og líta á þetta sem verkefni sem þarf að leysa og vonandi gerir þetta mig mig bara sterkari fyrir vikið og þá get ég sagt eina af flottustu setningum í heimi 'what doesn't kill you makes you stronger'."


Erfitt að vera uppi í stúku og klappa heilt tímabil
Birna hafði leikið sitt fyrsta tímabil í Pepsi-deildinni með FH sumarið 2010 en eftir tímabilið féll liðið í 1. deildina og hún var lánuð út síðustu leiktíð til ÍBV. Þar byrjaði hún frábærlega og hélt til dæmis hreinu í fyrstu fimm umferðum mótsins og fékk aðeins á sig 15 mörk allt tímabilið. Hún hefur í heildina spilað 58 leiki í deild og bikar en nú er ljóst að hún spilar ekkert árið 2012.

,,Því miður verður ekkert fótboltasumar hjá mér í sumar og ég veit að það mun vera ótrúlega erfitt fyrir mig að þurfa að vera uppi í stúku yfir heilt tímabil og ekki getað gert neitt nema kallað og klappað," sagði Birna sem stefnir á að verða klár í slaginn að nýju um áramótin.

,,Sjúkraþjálfarinn minn segir að ég geti verið komin á fullt um næstu áramót en auðvitað geri ég mér þær vonir að vera komin af stað fyrr, þá í október eða nóvember. En ég mun flýta mér hægt og vera 100% heil þegar ég kem til baka og fara eftir öllu sem er sagt við mig, gera allar þessar litlu leiðinlegur æfingar sem fylgja þessu og ekki stelast að gera meira en ég má eins og að hlaupa í 30 mínútur ef ég fékk bara leyfi fyrir 25 mínútum."

Átti eftir að taka lokaákvörðunum hvar hún myndi spila
Sem fyrr sagði var Birna á láni hjá ÍBV frá FH í fyrrasumar en nú er ljóst að bæði lið leika í Pepsi-deildinni næsta sumar. Hún segir að hún hafi ekki verið búin að ákveða hvar hún myndi spila næsta sumar þegar meiðslin komu upp.

,,Áður en ég meiddist var ég ekki alveg ákveðin hvar ég ætlaði að spila sumarið 2012. Hins vegar komu bara tvö lið til greina sem mig langaði að spila með og það voru ÍBV og FH. Lánssamningurinn minn rann út við ÍBV þegar FH kom upp og því er ég samningsbundinn FH," sagði Birna.

,,Ég var með báða möguleikanna opna og átti eftir að taka lokaákvörðun. Hins vegar viðurkenni ég það að það klæjaði ansi mikið að spila með ÍBV þar sem ég átti mitt besta fótboltasumar hingað til og fannst frábært að búa í Vestmannaeyjum og ég vonaði að ég gæti bætt mig enn meira á næsta tímabili."

Tilkynnt af KSÍ að hún yrði ekki valin meðan hún spilar handbolta
Birna hefur til þessa náð lengra í handboltanum þar sem hún spilar sem skytta en í fótboltanum. Eins og fyrr sagði hefur hún komist í A-landsliðið í handboltanum og eftir það fékk hún að vita að á meðan hún stundar handbolta á hún ekki möguleika á að vera valin í fótboltalandslið. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún haldi áfram að spila fótbolta eftir það.

,,Strax eftir tímabilið í fyrra var ég staðráðin í að halda áfram í fótboltanum þó að ég væri komin í landsliðið í handbolta," segir Birna. ,,Innst inni var ég alltaf búin að ákveða að vera í fótboltanum í framtíðinni og handboltinn var alltaf númer 2 í röðinni. En í september á seinasta ári þegar ég var valin í U 19 ára landsliðið í fótbolta og A landsliðið í handbolta á sama tíma, þá valdi ég handboltann framyfir í fyrsta skipti á ævinni en var langt frá því að vera hætt í fótbolta og þetta var engin lokaákvörðun."

,,Seinna í sömu viku var mér tilkynnt það af KSÍ að ég myndi ekki vera valin aftur í fótboltalandslið á meðan ég væri í handbolta. Fljótlega eftir það gerði ég mér grein fyrir því að mér þætti tilgangslaust að æfa fótbolta og stefna á að komast í fremstu raðir ef að ég kæmi ekki til greina í landsliðið því það hefur alltaf verið mitt markmið að komast í A landsliðið og vera ein af bestu markmönnum landsins."

,,Eftir þessa tilkynningu dofnaði áhuginn ósjálfrátt á fótboltanum og handboltinn fór að vera meira og meira spennandi sérstaklega þar sem ég keppti á HM í Brasilíu núna í desember. En lífið er svo óútreiknanlegt og ég útiloka enga möguleika fyrir fótbolta- né handboltatímabilið 2013."

Athugasemdir
banner