Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   fim 12. maí 2011 12:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 3. umferð: Mitt lið má bara tala dönsku
Rasmus Christiansen (ÍBV)
Rasmus Christiansen var vígalegur í gær.
Rasmus Christiansen var vígalegur í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Rasmus fagnar sigrinum með Heimi Hallgrímssyni þjálfara ÍBV.
Rasmus fagnar sigrinum með Heimi Hallgrímssyni þjálfara ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
,,Ég hélt að þetta væri grín en ég er auðvitað ánægður. Það er gott að aðrir telja að ég sé að spila vel," sagði Rasmus Christiansen leikmaður þriðju umferðar í Pepsi-deildinni í samtali við Fótbolta.net í dag.

Ramsus stóð vaktina vel í vörninni þegar ÍBV lagði Val 1-0 á útivelli í gær þrátt fyrir að vera manni færri allan síðari hálfleik.

,,Við spiluðum vel og stóðum saman í vörninni. Þeir fengu bara eitt eða tvö færi í öllum leiknum og það er jákvætt," sagði Rasmus sem var himinlifandi eftir að Þórarinn Ingi Valdimarsson skoraði sigurmarkið í viðbótartíma.

,,Það var það besta sem gat gerst til að eyðileggja partýið þeirra. Þetta var líka gott fyrir liðið því að við höfum ekki spilað jafnvel og við teljum okkur eiga að geta í fyrstu leikjunum. Þetta er jákvætt og við erum á réttri leið."

Rasmus fékk spark í höfuðið í fyrri hálfleik og hann fékk í kjölfarið umbúðir þannig að hann gæti klárað leikinn.

,,Þetta lítur verr út en þetta er. Ég er með smá höfuðverk í dag en ekkert meira en eftir aðra leiki. Þetta lítur illa út í sjónvarpinu, auðvitað var mikið blóð og það voru saumuð fjögur spor eftir leikinn en þetta hefði getað verið verra."

,,Ég vildi ekki fara út af, það var leikur í gangi og ég hugsaði ekki um að fara út af, þetta var ekki það vont. Þeir settu hjálm á mig í byrjun og síðan fékk ég umbúðir í síðari hálfleik þannig að ég kvartaði ekkert."


Eyjamenn rétt misstu af titlinum í fyrra en Rasmus telur að liðið geti verið aftur í baráttunni í ár.

,,Ég tel að við höfum lið í það en þetta veltur á sjálfum okkur. Ef við spilum eins og við getum best og eins og Heimir (Hallgrímsson) og Dragan (Kazic) segja okkur að gera þá eigum við klárlega möguleika á að berjast um titilinn eins og á síðasta ári."

Rasmus er sjálfur á sínu öðru tímabili með Eyjamönnum en þessi 21 árs gamli Dani stefnir hatt í framtíðinni.

,,Ég hef háleit markmið. Samningur minn rennur út eftir tímabilið og þetta veltur á hvaða aðra möguleika ég hef en ég vil klárlega vera áfram hér ef ég kann vel við mig og tel að ég geti bætt mig. Ég hef háleit markmið, núna er ég að leika fyrir utan Danmörku en ég vonast til að spila í öðrum deildum í framtíðinni sem og með landsliðinu."

Rasmus var staddur í grunnskólanum í Vestmannaeyjum þegar Fótbolti.net ræddi við hann í dag en hann hefur verið að hjálpa til við kennslu í skólanum.

,,Það er auðvitað dönskukennsla í skólunum og núna er ég að hjálpa dönskukennurunum til að hafa eitthvað að gera á daginn og taka hugann aðeins frá fótboltanum," sagði Rasmus sem var þó staddur í fótbolta í frímínútum þegar viðtalið var tekið.

,,Ég þarf að reyna að nota dönskukennsluna líka í fótboltanum svo mitt lið má bara tala dönsku," sagði Rasmus hlæjandi áður en hann þurfti að drífa sig. ,,Ég ætla að halda áfram því liðið mitt er að tapa," sagði þessi geðþekki Dani að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 2. umferðar - Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
Leikmaður 1. umferðar - Orri Freyr HjaItalín (Grindavík)
banner
banner