Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur oft verið Íslendingum hugleikið og hafa menn glaðst þegar vel hefur gengið. Einn af gleðidögunum var 29. júní 1951, eða fyrir 60 árum – þegar Svíar voru lagðir að velli á Melavellinum, 4:3. Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson vann það afrek að skora öll fjögur mörkin og hann gerði gott betur – skoraði fimmta markið, sem var dæmt af þó löglegt væri.
Þessi sigur mun lengi lifa í minningunni - er ódauðlegur. Aftur á móti er Melavöllurinn ekki lengur til og það er ekkert sem minnir á hvar hann var. Ríkharður sagði á dögunum er Skagamenn héldu upp á að 60 ár voru liðin síðan þeir fögnuðu fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum á Melavellinum 1951, að forystumenn Reykjavíkurborgar hafi gert mikil mistök þegar Melavöllurinn var rifinn - völlur sem bjó yfir mikilli sögu og þar sem allir fremstu íþróttamenn þjóðarinnar höfðu att kappi. Ekki aðeins knattspyrnumenn, heldur frjálsíþróttamenn eins og Gunnar Huseby, Vilhjálmur Einarsson, Torfi Bryngeirsson, Clausenbræðurnir Örn og Haukur, svo einhverjir séu nefndir.
Ríkharður sagði að það hefði átt að láta þennan sögufræga leikvang Íslendinga standa.
Margir höfðu skoðanir á hvað ætti að gera við Melavöllinn og gagnrýndu niðurrif vallarins. Því miður var ekki hlustað á þær gagnrýnisraddir – því fór sem fór. Vagga íslenskrar íþrótta og félagslíf var rifin niður fyrir steinkumbald, sem gat vel staðið á öðrum stað.
Nú 60 árum eftir að Íslendingar fögnuðu sigri á einni sterkustu knattspyrnuþjóð heims, Svíum, og sól er yfir þeim stað sem Melavöllurinn stóð, komu dökk ský yfir knattspyrnuna á Íslandi - frá höfuðstöðvum Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA.
Íslendingar eru komnir í 122. sæti á heimsstyrkleikalistanum, en vinir okkar Færeyingar eru 114. sæti.
Ísland hefur aldrei farið svo neðarlega á listann.
Þegar Ísland komst í 39. sæti á listanum í maí 1994 undir stjórn Ásgeirs Elíassonar, voru Færeyingar í sama sæti og Íslendingar eru nú, 122. sæti!
Íslenska landsliðið hefur langt frá því staðið sig vel að undanförnu. Ýmsar skoðanir hafa komið fram í sambandi við framgöngu landsliðsins og sem betur fer hafa ekki allir sömu skoðun á hlutunum.
Það getur enginn haldið því fram að hans skoðun sé sú eina rétta. Það kom mér því á óvart að kunnur íþróttafréttamaður leyfði sér að gera lítið úr skoðunum annara, án þess að rökræða það og segja frá sínum skoðunum, sem væntanlega eru þær réttu! Hann sagði í umfjöllun um landsliðið: „Hún hefur ekki öll verið gáfuleg, „gagnrýnin“ í garð íslenskra landsliðsins síðustu misserin.“
Ég held að það sé kominn tími til að forystumenn íslenskrar knattspyrnu, setjist niður og fari í naflaskoðun. Það væri gott að kalla á fjölmarga knattspyrnuunnendur úr öllum „stéttum“ knattspyrnunnar - óska eftir að þeir komi með sínar hugmyndir um hvað mætti betur fara og gera, hvað „gáfulegar sem þær eru“.
Það verður engin framför í íslenskri knattspyrnu, ef menn innan knattspyrnunnar fara að starfa eins og ríkisstjórn Íslands – að hunsa skoðanir annara og telja að aðeins sín vinnubrögð séu gáfuleg!
Höldum áfram að hafa skoðanir,
Já, og gagnrýnum!
Sigmundur Ó. Steinarsson