Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 29. ágúst 2011 09:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Nani - Ljóður á ljúfu liði
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester United vann yfirburðarsigur á lærisveinum Arsene Wenger á Old Trafford í gær. Öllum ættu að vera ljós úrslitin enda brandarinn ,,I 8-2 be an Arsenal fan today" nú þegar orðinn gamall brandari.

Þegar liðið manns vinnur 8-2 sigur ætti ekki að vera neitt til þess að pirra sig yfir. Rooney með þrennu, einn af nýju strákunum með tvö glæsimörk og liðið að spila frábærlega saman. En jú, einn leikmaður fer óstjórnlega í taugarnar á mér.

Hann hefur klæðst United treyjunni í yfir 150 leikjum og skorað fullt af flottum mörkum. Honum hefur þrátt fyrir það aldrei tekist að sannfæra mig um að hann eigi skilið að klæjast rauðu treyjunni. Hann heitir Luís Nani.

Hæfileikarnir eru ótvíræðir. Tækni, hraði og getur skotið með hægri og vinstri. Hann getur líka gefið flottar sendingar þrátt fyrir að hann hafi reyndar tekið of margar slakar hornspyrnur í gegnum tíðina fyrir minn smekk. Sem einstaklingur er hann stórkostlegur, einn sá besti í heiminum. Sem hluti af liði er hann það ekki.

Nani átti svo sem ágætis leik í gær en þó voru aðstöður sem komu upp í leiknum sem fóru í taugarnar á mér.

Í eitt skiptið lék hann vel framhjá Traore, vinstri bakverði Arsenal, nánast kominn upp að endamörkum með sendingarmöguleika inn á teignum. Nani valdi að reyna vippuna yfir Pólverjann í marki Arsenal. Í besta falli bjartsýnistilraun og tókst að sjálfsögðu ekki. Wayne nokkur Rooney, stórstjarna sem hefur hagsmuni liðsins að leiðarljósi, hristi hausinn yfir ákvörðun Nani en Englendingurinnn hárprúði ætti að vera orðinn vanur portúgölskum samherjum með of stórt egó.

Í annað skipti skoraði Nani reyndar afar snyrtilegt mark. Hann fékk þá boltann einn gegn Szcz?sny og vippaði yfir hann ískaldur og hrokafullur. Málið var að Nani var með Javier Hernandez sér við hlið og hefði getað lagt hann á Mexíkóann sem hefði, ólíkt Nani, verið fyrir opnu marki. Hugsanlega hefði Nani gert það hefðu leikar verið jafnari, erfitt að segja.

Einhverjir myndu kannski benda á að Hernandez hefði kannski verið rangstæður. Toppleikmaður á borð við Nani hefði auðvitað ekki gefið boltann nema samherjinn hefði verið í línu eða fyrir aftan sig. Félagarnir (efast reyndar um að þeir séu félagar) hefðu unnið saman úr því og fagnað saman. Í staðinn fagnaði Nani eins og hann væri eini leikmaðurinn á vellinum, hendurnar til himna og Chicharito, sem horfir ekki sjaldnar upp til skaparans en Nani, fagnaði með Portúgalanum formsins vegna frekar en af gleði.

Ég gæti einnig tínt til klúður Nani í dauðafæri í síðari hálfleiknum, þegar hann hitti ekki boltann, en ætla að skrifa það á mannleg mistök hjá kappanum.

Nani var skipt út af í síðari hálfleiknum og virtist það ekki fara vel í kappann óbrosmilda sem gekk af velli með sinn klassíska fýlusvip sem myndi sóma heimsins alvarlegasta kistubera. Inná í hans stað kom Ji-Sung Park.

Það er best að taka fram strax að ég er mikill aðdáandi Park. Sú staðreynd að Suður-Kóreumaðurinn er algjör andstæða Portúgalans fær mig til þess að hrífast af honum. Hann tekur hlutverk sitt alvarlega hvort sem liðið er með boltann eða andstæðingurinn. Hann velur yfirleitt einfaldasta eða besta sendingarmöguleikann í hverri stöðu. Ef hann tekur einn mann á og liðið er komið í yfirtölu ákveður hann ekki að taka næsta mann á líka. Hann er dáður af liðsfélögum sínum og er reglulegur markaskorari í stórleikjum. Það virðist nefnilega ekki skipta neinu máli hver mótherjinn er eða hver staðan er. Park, mun takmarkaðri knattspyrnumaður en Nani en líklega jafn ofurlaunaður, tekur hlutverk sitt alvarlega og ég elska hann fyrir það.

Knattspyrna er liðsíþrótt og sama hversu góður einn leikmaður er mun besta liðið nánast undantekningalaust hafa sigur. Besti knattstpyrnumaður heims, Lionel Messi, er líklega besta dæmið um leikmann sem tekur liðið fram yfir fullnægingu á eigin egói. Cristiano Ronaldo er dæmi um hið gagnstæða. Munurinn á Ronaldo og Nani er hins vegar sá að maður sem skorar meira en mark að meðaltali fyrir lið sitt hefur efni á að gera það sem hann vill. Nani hefur það ekki.

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner
banner