Mér blöskrar hreinlega við umræðunni sem og atvikum sem átt hafa sér stað í heimi fótboltans undanfarin misseri er varða kynþáttafordóma.
Sepp Blatter sýndi enn og aftur hvers vegna hann er vanhæfur sem forseti FIFA með ummælum sínum um kynþóttafordóma í síðustu viku og komu þessi ummæli á nákvæmlega sama tímapunkti og enska knattspyrnusambandið ákvað að kæra Luis Suarez fyrir niðrandi ummæli í garð Patrice Evra.
Það ber að taka það fram að Suarez er saklaus þangað til sekt hans er sönnuð.
Ég vona að umræðan um þessi mál geti verið almenn, en ekki lituð af því með hvaða liði maður heldur. Kynþáttafordómar eiga hvergi heima, og þar að leiðandi ekki inná fótboltavellinum heldur.
Sú tilraun netverja til að reyna að draga upp ljóta mynd af Frakkanum í vörn Manchester United er algjör hneysa og það virðist vera sem svo að fólk átti sig í raun ekki á því hvað kynþáttafordómar er mikið vandamál í nútímafótbolta.
Ummæli Gus Poyet var kornið sem fyllti mælinn og ákvað ég því að taka upp pennann.
Sú staðreynd að Patrice Evra hafi ákveðið að stíga upp og láta dómarann vita af þessum niðrandi ummælum sem Luis Suarez lét um hann falla, hefur greinilega orðið þess valdandi að hann er ásakaður um að gera eitthvað sem ekki er venjulegt að gera og þykir illa séð. Í augum margra hefði Evra bara átt að láta kyrrt liggja og hætta þessu væli.
Það þykir greinilega ekki nógu „karlmannlegt“ að væla og grenja yfir því að verða fyrir kynþáttaníð því þetta er svo eðlilegur hluti af leiknum. Menn eiga bara að takast í hendur og gleyma þessu þegar það er búið (skv.Blatter).
Mér þætti mjög óeðlilegt að heyra einhvern nota niðrandi orð um Asíubúa eða blökkumann í næstu matvörubúð, og held ég flestum, en ef þetta myndi gerast inná knattspyrnuvellinum er það allt í lagi, afþví þetta er svo eðlilegt þar.
Sjálfur er ég ekki dökkur á hörund og ekki spila ég í ensku úrvalsdeildinni, og ekki ætla ég að reyna að skilja þær tilfinningar sem renna um æðar Evra eða annarra sem orðið hafa fyrir kynþáttaníð af einhverju tagi. Það getur vel verið að þetta sé mjög eðlilegt í ensku úvalsdeildinni, en það er þá alveg jafn slæmt ef þetta er eðlilegur hlutur. Ég er svo heppinn að hafa ekki orðið fyrir slíku aðkasti því ekki getur þetta verið öfundsverð staða. Það getur verið að Evra hafi misskilið félaga sinn úr Bítlaborginni en það verður þá að leysa það mál með farsælum hætti.
Ég fór á leik með Bröndby um árið á flottum heimavelli þeirra. Á móti þeim var að spila lið sem heitir Randers. Til að gera langa sögu stutta fóru gestirnir illa með heimamenn og léku framherjar þeirra á als oddi. Þessir framherjar voru dökkir á hörund og fengu þeir að heyra apahljóð úr stúku heimamanna með tilheyrandi látbragði. Flestir eru sammála um að þetta sé ekki eðlilegt. Ég sé ekki muninn á þessu og að heimsfrægur leikmaður í ensku úrvalsdeildinni reyni að niðurlægja andstæðing sinn út frá litarhætti hans.
Knattspyrnumenn eru ekki hafðir yfir lög og eiga ekki að haga sér eins og fífl, sama í hvaða liði þeir eru.