Það fylgir því mikil ábyrgð að vera þjálfari, sérstaklega í yngri flokkum, en þar mótast ungir íþróttamenn og góður/lélegur þjálfari getur haft heilmikið að segja um framtíð íþróttamannanna.
Það er ekkert sjálfsagt að þú sem þjálfari eigir að kunna allt tengt þjálfun. Allir hafa sína styrkleika og veikleika, en oftast kunna fótboltaþjálfarar fótboltaþjálfun nokkuð vel en eru með brækurnar á hælunum þegar kemur að líkamlega hlutanum, já eða snerpu og hlaupaþjálfun. Það má ekki gleyma að til að íþróttamaður geti náð árangri, þá þarf að vinna með ýmislegt annað en bara fótboltann, eins og að leggja vinnu í skrokkana (sem er jú atvinnutæki atvinnumannsins), kenna rétta líkamsbeitingu, þekkja hvaða æfingar henta og henta ekki íþróttinni.
Ég er alltaf jafn hissa þegar ég sé fullorðna íþróttamenn sem kunna ekki að gera „einfaldar“ æfingar eins og armbeygjur, hnébeygjur, hoppa og lenda rétt, stefnubreytingar, hlaupa sæmilega rétt, og þess háttar ... eitthvað sem leikmenn eru alltaf að gera í leik, en kunna svo ekki að framkvæma rétt.
Ég bara skil ekki af hverju þessir hlutir eru ekki kenndir rétt og vel í yngri flokkunum þar sem þetta getur hjálpað íþróttamönnunum svo mikið í framtíðinni. Ég skil að þjálfararnir kannski kunna ekki eða treysta sér ekki til að kenna þetta, en þá er gott að leita til þeirra sem kunna réttu tökin og aðferðirnar. Ég hef t.d. verið með fjarþjálfun í nokkrum flokkum í nokkrum félögum og þá bara kenni ég öllum grunnatriðin og þjálfarar fá prógram til að fylgja eftir.
En ég er ekki hér til að auglýsa sjálfa mig, eða til að nöldra... heldur langar mig til að hjálpa. Mig langar að benda metnaðarfullum þjálfurum á að helgina 14.-15. Apríl kemur Martin Rooney til landsins og verður með hraðaþjálfunarnámskeið. Ef þú hefur metnað til að bæta þig sem þjálfara og hjálpa þínum íþróttamönnum, þá mætir þú klárlega.
Martin Rooney mun fara yfir marga hluti, kenna sitt æfingakerfi, og hugmyndafræði sem hann notar á yngri flokks leikmenn sem og afreksmenn. Hann mun kenna dýnamískar upphitunaraðferðir, sem allir ættu að vera að nota í dag, hvernig er hægt að bæta hraðann, hlaupagreiningar, stefnubreytingar, bremsun og fleira.
Ég hef kynnt mér þennan mann og hlakka til að „pick his brain“. Endilega kíktu á kallinn á youtube!
Námskeiðið er helgina 14.-15. Apríl, og ef þú ert þjálfari með metnað – þá sjáumst við þar! En athugið að skráningu lýkur 9. Apríl! Það er hópafsláttur ef 4+ mæta frá sama félagi og sumir eiga rétt á styrk! Endilega kynnið ykkur þetta.
Hér geturðu skoðað þetta námskeið betur: http://www.keilir.net/heilsa-og-uppeldi/namskeid/martin-rooney.
Gangi ykkur vel
Silja Úlfarsdóttir
Athugasemdir