Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   fös 10. maí 2013 15:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild - Tileinka þetta mark félaga mínum
Leikmaður 1. umferðar: Ásgeir Þór Ingólfsson (Haukar)
Ásgeir Þór Ingólfsson fagnar marki sínu í gær.
Ásgeir Þór Ingólfsson fagnar marki sínu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er alltaf skemmtilegt að fá svona tilnefningu. Ég hefði getað bent á fleiri í liðinu í gær en það er gaman að fá þetta," segir Ásgeir Þór Ingólfsson leikmaður fyrstu umferðar í 1. deild karla.

,,Það var frábært að byrja á sigri. Það hefur verið gríðarlega erfitt fyrir Hauka að spila á móti Þrótti og ég held að við höfum aldrei unnið þá á útivelli. Það var mikill léttir að vinna þetta."

Ásgeir skoraði fyrra mark Hauka í leiknum með fínum skalla í fyrri hálfleik.

,,Ég vil tileinka markið félaga mínum, Andra Líndal, sem féll frá fyrir tveimur mánuðum. Hann var góður félaga margra í Haukum og við vorum ákveðnir í að taka stigin þrjú heim í gær fyrir hann."

Ásgeir lék með Val í Pepsi-deildinni í fyrra en hann segist hafa lært helling síðastliðið sumar.

,,Ég lærði heilan helling af Frey og Kristjáni. Maður bætir sig sem fótboltamaður með því að spila með betri leikmönnum. Valsmenn voru mjög vel mannaðir síðastliðið sumar og ég lærði ýmislegt af þeim meisturum. Ég fékk aðeins öðruvísi sýn á fótboltann og hvað það er mikilvægt að vera partur bæði innan sem utan vallar," sagði Ásgeir sem hafði úr nokkrum tilboðum að velja síðastliðið haust.

,,Þegar ég ákvað að skrifa undir hjá Haukum þá voru nokkur tilboð á borðinu. Þegar ég var búinn að ræða við Hauka þá leist mér vel á það sem þeir ætla að gera og þeir hafa staðið undir því. Maður þarf stundum að taka eitt skref aftur á bak til að taka tvö áfram. Það er mikilvægt að fá að spila í stað þess að vera inn og út úr liði hjá liði úrvalsdeildinni."

Haukum er spáð þriðja sætinu í fyrstu deildinni í sumar en þeir stefna á að fara upp í Pepsi-deildina.

,,Maður er í þessu til að ná árangri og ég tel að við getum gert tilkall í að fara upp í úrvalsdeildina. Þegar það voru þrjú lið eftir í spánni var best að vera númer þrjú. Það er pressa á Grindavík og KA-mönnum. Deildin í ár er mjög góð og Þrótturum er til a mynda spáð 8. sæti en ég gæti sett þá í topp fimm. Það er flott að sjá að fulltrúar úr öðrum liðum hafa trú á okkur og það er klárt að við ætlum að gera sem mest úr sumrinu," sagði Ásgeir.
Athugasemdir
banner
banner
banner