Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mið 11. maí 2016 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í Inkasso: Eigum fullt erindi í þessa deild
Leikmaður 1. umferðar - Stefán Ómar Magnússon (Huginn)
Stefán fagnar marki sínu á laugardaginn.
Stefán fagnar marki sínu á laugardaginn.
Mynd: Austurfrett.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hanna Símonar
„Tilfinningin var ólýsanleg. Það er frábært að vera komnir loksins í 1. deildina," sagði Stefán Ómar Magnússon leikmaður Hugins sem lék fyrsta leik félagsins í 1. deildinni síðastliðinn laugardag. Þessi sextán ára efnilegi strákur er leikmaður 1. umferðar í Inkasso-deildarinnar.

Huginn gerði góða ferð í Fjarðabyggðarhöllina og unnu heimamenn 2-1 eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik.

„Við vorum mjög góðir í seinni hálfleik og töluvert betri aðilinn. Fyrri hálfleikurinn var ekki eins góður en seinni hálfleikurinn var frábær," sagði Stefán sem segist finna fyrir miklum stuðningi frá bæjarbúum.

„Það er nánast hver einasti íbúi á Seyðisfirði sem leggur sitt að mörkum fyrir félagið. Það mætti helling af fólki á leikinn og þetta var frábært."

„Þetta var alvöru Derby-leikur. Miðað við spár þá var þetta sex stiga leikur í fyrstu umferð. Það var því gott að vinna þennan leik," sagði hinn sextán ára Stefán Ómar sem var ánægður með sinn leik en hann jafnaði metin fyrir Huginn eftir 49 mínútna leik.

„Ég fann mig sérstaklega vel í seinni hálfleik. Ég stefni á að spila eins mikið í sumar og ég get og reyna hjálpa liðinu til dæmis með mörkum."

Seyðisfjarðarliðið var spáð falli af þjálfurum og fyrirliðum í deildinni. Stefán blæs á þær spár.

„Við eigum fullt erindi í þessa deild. Við stefnum á það að halda okkur upp í deildinni," sagði Stefán en Huginn mætir Grindavík í næstu umferð. Sá leikur fer að öllum líkindum fram á gervigrasvellinum í Fellabæ.

„Það er leiðinlegt að fyrsti heimaleikurinn verður ekki á Seyðisfirði. Annars leggst sá leikur vel í okkur," sagði leikmaður 1. umferðar í Inkasso-deildarinnar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner