fös 11. ágúst 2017 12:00
Magnús Már Einarsson
Gummi Ben spáir í leiki helgarinnar á Englandi
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Arsenal byrjar á sigri í kvöld samkvæmt spá Gumma.
Arsenal byrjar á sigri í kvöld samkvæmt spá Gumma.
Mynd: Twitter
Liverpool nær að vinna Watford samkvæmt spánni.
Liverpool nær að vinna Watford samkvæmt spánni.
Mynd: Getty Images
Mourinho vinnur West Ham samkvæmt spá Gumma.
Mourinho vinnur West Ham samkvæmt spá Gumma.
Mynd: Getty Images
Boltinn byrjar að rúlla á nýjan leik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld eftir sumarfrí.

Guðmundur Benediktsson, þáttastjórnandi í Messunni á Stöð 2 Sport, spáir í leikina í fyrstu umferð.

Fyrsti þáttur Messunnar verður í beinni frá Ölveri í Glæsibæ klukkan 17:00 á sunnudag.



Arsenal 3 - 0 Leicester (18:45 í kvöld)
Arsenal ætlar sér að byrja betur á þessu tímabili en undanfarin ár og gera það. Shakespeare ævintýrið er búið og þetta verður þægilegt fyrir Arsenal.

Watford 1 - 2 Liverpool (11:30 á morgun)
Watford er eins og stoppistöð. Þegar það kemur strætó þá kemur fullt af nýju fólki og annað fer. Barátta Liverpool um Coutinho hefur engin áhrif í þessum leik. Þrátt fyrir að það vanti lykilmenn hjá Liverpool þá hjálpar það Watford ekkert.

Chelsea 3 - 0 Burnley (14:00 á morgun)
Þetta verður gríðarlega erfiður vetur hjá Burnley. Þetta verður líka erfiðari vetur hjá Chelsea en í fyrra. Chelsea vinnur hins vegar þægilegan sigur þarna áður en álagið fer að segja til sín hjá litlum hópi.

Crystal Palace 1 - 1 Huddersfield (14:00 á morgun)
Það er ekki hægt að spá fyrir um þennan leik. Það verður gaman hjá Huddersfield að spila fyrsta leik í ensku úrvalsdeild og þeir ná í stig. Frank de Boer er að stýra sínum fyrsta leik á Englandi og ég held að hann sé ekki búinn að fatta hvernig þetta virkar. Jafntefli verður niðurstaðan. Palace menn verða hundóánægðir en Huddersfield menn fagna eins og þeir hafa komist aftur upp.

Everton 2 - 0 Stoke (14:00 á morgun)
Þetta er þægilegur heimasigur. Everton hefur safnað liði og á ennþá eftir að fá síðasta lykilinn, íslenskan lykil. Stoke hefur misst karaktera eins og Arnautovic og Walters. Þeir eru ekki alveg klárir þar sem þeir eru ennþá að safna liði.

Southampton 1 - 2 Swansea (14:00 á morgun)
Swansea hefur undirbúið sig án Gylfa á meðan Southampton hefur gengið upp og ofan í æfingaleikjum. Þeir steinlágu meðal annars gegn Alfreð og félögum í Augsburg. Þetta verða óvænt úrslit.

WBA 1 - 0 Bournemouth (14:00 á morgun)
Tony Pulis var að gera nýjan samning við WBA. Þá getur hann loksins klárað að borga Crystal Palace þessar milljónir sem hann skuldar. Hann er ánægður og WBA vinnur 1-0. 1-0 fyrir Tony Pulis er eins og 10-0 fyrir eðlilega þjálfara. Hann verður mjög sáttur.

Brighton 1 - 3 Manchester City (16:30 á morgun)
Manchester City er besta og flottasta liðið á Englandi þessar mundir. Það er gríðarleg stemning og spenna í Brighton og City þarf að hafa fyrir sigrinum.

Newcastle 3 - 2 Tottenham (12:30 á sunnudag)
Það er gríðarleg gleði í Newcastle. Þeir eru komnir aftur upp þar sem þeir eiga að vera. Það er krafa hjá Tottenham að gera betur á síðasta tímabili en það er erfitt. Þeir spila á Wembley og verða ekki jafn öflugir heima eins og á síðasta tímabili. Ég held að við fáum óvænt úrslit. Rafa býr til þrjú stig þarna.

Manchester United 2 - 0 West Ham (15:00 á sunnudag)
Við sáum West Ham á Laugardalsvelli fyrir viku og þeir eru ekki tilbúnir. Þeir fara alveg eins í leikinn á Old Trafford og reyna að verjast. Það dugar ekki til gegn Mourinho og United.
Athugasemdir
banner
banner
banner