Það ríkir alltaf mikil spenna þegar hin fornfrægu stórveldi, KR og ÍA mætast og í gærkvöld tóku KR-ingar á móti Skagamönnum í Frostaskjólinu.
Skagamenn höfðu ekki sigrað KR-inga í Frostaskjólinu í háa herrans tíð eða síðan 1993 sem bætti enn á spennuna. Þjálfararnir Magnús Gylfason og Ólafur Þórðarson gerðu nokkrar breytingar á sínum liðum en menn áttu þó von á því að Bjarni Óskar Þorsteinsson kæmi inn í vörn KR eftir þrálát meiðsli. Þótt hann hefði hitað upp með félögum sínum þá hóf hann ekki leikinn og Sölvi Sturluson gekk í miðvarðarstöðuna í stað Bjarna.
Til að byrja með voru það KR-ingar sem virtust koma ferskari til leiks en fljótlega komst jafnræði á með liðunum. Strax á fyrstu mínútu tók Grétar Ólafur Hjartarson góðan sprett upp hægri kantinn, gaf svo fyrir en Bjarki Freyr Guðmundsson, markvörður Skagamanna kom í veg fyrir að eitthvað yrði úr því.
Leikurinn einkenndist svo fyrstu tuttugu mínúturnar af mikilli miðjubaráttu og fátt var um færi. KR-ingar voru þó aðgangsharðari upp við mark Skagamanna ef eitthvað var. Mikið var um tæklingar og hvorugt liðið náði að byggja upp spil af einhverri alvöru.
Það er varla hægt að tala um færi fyrr en eftir um hálftíma leik því á 28. mínútu dró til tíðinda. KR-ingar fengu hornspyrnu sem þeir nýttu ekki vel. Boltinn barst svo aftur völlinn á Jökul Elísabetarson sem var aftastur þeirra heimamanna. Jökli skrikaði fótur þegar hann var í þann mund að taka við knettinum og Hafþór Ægir Vilhjálmsson hirti boltann af honum, tók á rás upp allan völlinn og lét skotið ríða af við vítateiginn. Kristján Finnbogason, markvörður og fyrirliði KR-inga, var nálægt því að verja en á endanum lá boltinn í netinu.
Spyrnur Sigurvins Ólafssonar sköpuðu ávallt hættu en aðrir gerðu lítið sem vert er að minnast á. Mun meiri barátta var í Skagaliðinu en Vesturbæingum eftir markið og ekki að sjá að KR-ingar myndu ná að svara marki þeirra. Staðan í leikhléi var því 0-1 og Skagamenn gátu gengið sáttir til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur byrjaði mjög álíka og sá fyrri endaði. Mikið hnoð og menn áttu erfitt með að halda boltanum innan liðsins. Fyrstu tíu mínúturnar voru óhemju leiðinlegar en þá reyndu KR-ingar allt hvað þeir gátu að komast í gegnum vörn Skagamanna en ekkert gerðist.
Skagamenn náðu þó ágætis sókn á 55. mínútu þegar Hafþór Ægir Vilhjálmsson, tók góða rispu upp vinstri kantinn, gaf fyrir þar sem Kári Steinn var mættur en Tryggvi Bjarnason kom boltanum undan. Hafþór var mjög ógnandi í leiknum og nýtti hraða sinn mjög vel til þess.
Á 62. mínútu syrti enn í álinn fyrir KR-inga. Mikið hnoð varð í teig KR-inga milli leikmanna og Bjarnólfur Lárusson sást slá til Reynis Leóssonar og fyrir það fékk hann að líta rauða spjaldið. Það síðasta sem KR-ingar þurftu á þessum tímapunkti var að missa mann út af og ekki leit út fyrir það að þeir myndu rífa sig upp úr þessum arfaslaka leik sem þeir áttu í Frostaskjólinu í gærkvöld.
Besta og líklega eina alvöru færi KR-inga kom á 73. mínútu. Gestur Pálsson fékk boltann úti á vinstri kantinum, gaf svo háa sendingu inn á teig þar sem Garðar Jóhannsson, besti maður KR-inga náði skalla að marki. Bjarki varði hinsvegar meistaralega og aftur lét hann til sín taka eftir hornspyrnu frá Sigurvini Ólafssyni í kjölfarið af skallafæri Garðars.
Á 85. mínútu gerðist stórmerkilegur atburður. Boltinn barst manna á milli lengst úti á velli og barst svo til Igors Pesic sem var staðsettur aðeins fyrir innan miðjulínu. Kristján Finnbogason hafði brugðið sér út fyrir vítateiginn eins og markmanna er háttur þegar þeim virðist hættan vera lítil en Pesic ákvað að taka af skarið og lét einfaldlega skotið ríða af af sínum eigin vallarhelmingi. Ótrúlegt en satt þá lá boltinn í netinu og þetta mark fer ábyggilega langt með að verða mark mótsins. Þetta gerði algjörlega út um leikinn og Skagamenn fóru heim með þrjú stig og skutust upp fyrir KR-inga á stigatöflunni.
Menn hljóta að spyrja sig að því hvað sé að gerast í herbúðum KR-inga. Hver deildarleikurinn á fætur öðrum tapast og t.a.m. hafa þeir fengið á sig fimm mörk í síðustu tveimur leikjum í deildinni.
Skagamenn geta hinsvegar verið sáttir með að hafa sigrað í fyrsta sinn í Frostaskólinu síðan 1993 og einnig með það að hafa leikið glimrandi góðan fótbolta á köflum.
Athugasemdir