Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 01. ágúst 2024 15:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Engar afsakanir hjá Dóra og Blikum: Gríðarleg vonbrigði
Þjálfarinn Halldór Árnason.
Þjálfarinn Halldór Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað ef dómarinn hefði dæmt víti?
Hvað ef dómarinn hefði dæmt víti?
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Drita lét Fiorentina heldur betur hafa fyrir því í einvígi liðanna 2021.
Drita lét Fiorentina heldur betur hafa fyrir því í einvígi liðanna 2021.
Mynd: EPA
'En það er samt allt annað að geta labbað út af vellinum og verið meðvitaðir um að allir gerðu sitt besta'
'En það er samt allt annað að geta labbað út af vellinum og verið meðvitaðir um að allir gerðu sitt besta'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Full einbeiting á Bestu deildina.
Full einbeiting á Bestu deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég endurtek samt, engar afsakanir, við áttum að vera með forskot eftir heimaleikinn'
'Ég endurtek samt, engar afsakanir, við áttum að vera með forskot eftir heimaleikinn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta tapaðist því miður á Kópavogsvelli."

Breiðablik tapaði á þriðjudag gegn Drita í Kósovó og féll úr leik í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Breiðablik var marki eftir fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli og hefði því þurft að vinna með einu marki til að knýja fram framlengingu og tveimur til að fara áfram í 3. umferðina.

Fótbolti.net ræddi um leikinn við þjálfara liðsins, Halldór Árnason.

„Ég horfi til baka og það eru gríðarleg vonbrigði hvernig við köstuðum leiknum á Kópavogsvelli frá okkur. Þrátt fyrir að við vorum virkilega góðir stóran hluta af þeim leik, þá gefum við tvö mörk snemma í leiknum sem kom okkur í djúpa holu," segir Dóri.

„Við vissum alveg að aðstæður hérna úti yrðu krefjandi, vorum undir það búnir. Mér fannst menn gera allt sem þeir gátu í þessum leik við mjög erfiðar aðstæður. Hver einasti leikmaður sem tók þátt í leiknum gaf allt í þetta."

„Planið gekk ágætlega upp. Fyrst og fremst var mjög mikilvægt að fá ekki mark á okkur snemma. Á síðasta árinu höfum við fimm sinnum fengið á okkur mark í Evrópuleik innan við fimm mínútum eftir að leikurinn byrjaði og fimm sinnum höfum við fengið þrjú mörk á okkur á tíu mínútna kafla á útivelli í Evrópu,"
segir Dóri og lýsti svo aðstæðum áður en farið var yfir leikinn.

„Það eru engar afsakanir, við vissum nákvæmlega hvað við værum að fara út í, en þessi völlur var ekki löglegur að neinu leyti. Alltof lítill, engin flóðljós, engin leikklukka, ekki vökvað og völlurinn þurr og harður."

„Það var 27 stiga hiti og sól. UEFA gaf undanþágu á vatnspásu í sitthvorum hálfleiknum. En af því það var undanþága - það þurfa að vera 30 gráður svo það sé skylda - þá þurftu bæði liðin að samþykkja það. Þeir eðlilega vildu ekki hafa neina vatnspásu, þekkja þessar aðstæður. Það var eins með hvort það ætti að vökva völlinn. Við vildum að sjálfsögðu að hann yrði vökvaður en Drita vildi það ekki. Allt í góðu með það, því við vissum nákvæmlega hvernig þetta yrði."

„Á 60. mínútu þá var 0-0 og við áttum að fá vítaspyrnu - þetta var bara víti. Þá hefðum við átt mjög góðan möguleika á því að jafna einvígið."


Drita hefur staðið í mjög sterkum liðum
Skömmu síðar skoraði Drita draumamark og komst í 1-0 sem urðu svo lokatölurnar í þessum seinni leik.

„Menn þekkja ekkert sérstaklega vel til þessara lið og landa, en þetta var hörkulið sem við vorum að mæta. Við ætluðum okkur að slá þá út, og við áttum að gera það. En af þeim sem liðum sem við gátum dregist gegn þá var þetta sterkasta liðið."

„Þeir hafa náð frábærum úrslitum undanfarin ár: slegið út lið frá Finnlandi og Svartfjallalandi. Þeir voru mínútu frá því að slá út Feyenoord '21, tapa nokkuð naumlega gegn Antwerp '22 og í fyrra töpuðu þeir á lokamínútu framlengingar gegn Viktoria Plzen frá Tékklandi - vítaspyrna í uppbótartíma í framlengingunni sem Plzen nýtir og fer áfram. Viktoria Plzen fer svo í riðlakeppnina í Sambandsdeildarinnar, spilar sex leiki og vinnur þá alla og fær einungis eitt mark á sig. Þeir duttu svo út á móti Fiorentina naumlega í 8-liða úrslitum."

„Ég er ekki að tala þá upp eða með neinar afsakanir, við áttum að vinna þá heima og klára verkefnið úti. En þetta er drullugott lið með góða leikmenn og að er alveg ástæða fyrir því að Kósovó hefur verið miklu hærra en Ísland á styrkleikalistunum í Evrópu."

„Það er erfitt að fara á þetta svæði og spila útileiki í Evrópu. Þeir eru líka vanari þessum aðstæðum. Við vissum að það yrði erfitt að fara út marki undir."


Blikar eru meðvitaðir um að þeir óðu ekki í færum í leiknum en fengu þó nokkra möguleika.

„Heilt yfir gekk þetta eftir plani. Planið var svo að síðustu 20-25 mínúturnar myndum við taka meiri sénsa og kasta meiru í þá. Eiginlega nákvæmlega þegar við erum að byrja á því þá eiga þeir þetta draumaskot - algjör martraðartími að fá mark á sig."

Ekki hægt að biðja um neitt meira
Höskuldur Gunnlaugsson gerði sterkt tilkall til vítaspyrnu eftir um klukkutíma leik. Fengu Blikar einhver svör hvers vegna ekki var flautað?

„Nei, dómararnir meta bara að þetta sé ekki víti. Þeim fannst þetta ekki nógu mikil snerting. Vandamálið fyrir mér er það að þeir dæmdu á allar snertingar á vellinum. Það var aukaspyrna á allt allan leikinn. Þetta var sennilega mesta snertingin allan leikinn. Það er svo auðvelt að dæma úti á velli og sleppa svo þessu inn í teig. Ég ætla ekki að kenna því um, en ef við hefðum fengið víti þarna og nýtt þá, þá hefði þetta verið algjör snilld."

„En svo fara þeir upp og skora. Það er svo ótrúlega stutt á milli. Draumamark fyrir þá á martraðartímapunkti fyrir okkur. Þeir gátu fallið aftar og harkað þetta út."

„Það er gríðarlega svekkjandi að detta út, maður sá það líka alveg á strákunum. En það er samt allt annað að geta labbað út af vellinum og verið meðvitaðir um að allir gerðu sitt besta. Það er ekki hægt að biðja um meira. Þetta tapaðist bara í heimaleiknum."


Óbreytt markmið í deildinni
Breytir þetta tap markmiðum Breiðabliks í Bestu deildinni?

„Nei. Við höfum alltaf ætlað okkur að berjast um toppsætið í deildinni og það er ekkert sem hefði breytt því. Það sem gerist er auðvitað bara það að fókusinn fer allur á deildina, það er engin önnur keppni eftir. Það var mikið svekkelsi að detta snemma út úr bikar."

„Auðvitað snýst Evrópu mikið um góða frammistöðu, en það er ekki alveg í þínum höndum. Þegar við fengum Drita þá hefðum við getað fengið lið sem hefur aldrei unnið Evrópuleik. Þetta snýst líka um heppni, hvað þú færð. En aftur, við áttum bara að vera með forskot eftir heimaleikinn."

„Við ætluðum okkur að fara áfram í næstu umferð. Við vorum kannski óheppnir að fá Drita, en hefðum svo verið heppnir með drátt í næstu umferð - hefðum fengið lið sem er um miðja deild í Lettlandi. Það eru líka gríðarleg vonbrigði að hafa ekki komið okkur í það tækifæri á að spila um að komast í umspilið."

„Núna er bara deildin, markmiðið er að vera við toppinn þegar úrslitakeppnin hefst. Það er ekki spurning,"
segir Dóri.

Næsti leikur Breiðabliks verður gegn Fylki eftir Verslunarmannahelgina. Liðið er sem stendur sex stigum á eftir Víkingi en á einn leik til góða.
Athugasemdir
banner
banner