Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   mið 02. júlí 2025 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
„Stórkostlegast að við erum saman hérna 2025"
Icelandair
EM KVK 2025
Natasha og Sveindís á landsliðsæfingu á dögunum.
Natasha og Sveindís á landsliðsæfingu á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Natasha fyrir leik með Val í sumar.
Natasha fyrir leik með Val í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gömlu vinkonurnar Natasha Moraa Anasi og Sveindís Jane Jónsdóttir eru mættar saman á Evrópumótið í Sviss.

Þær léku saman í Keflavík frá 2017 til 2019 þegar Sveindís var að hefja sinn feril og Natasha var kannski aðeins meiri reynslubolti. Núna eru báðar í íslenska landsliðshópnum á EM.

Natasha var í viðtali við Fótbolta.net á dögunum og var þar spurð út í það hvernig það væri að vera með Sveindísi, sínum gamla liðsfélaga, í þessum hópi.

„Ég var að skoða gamlar myndir og við erum alltaf að djóka um tímann í Keflavík. Það er ótrúleg tilfinning að vera hérna með henni," sagði Natasha um Sveindísi.

„Hún er komin svo langt og ég er svo stolt af henni. Hún er að fara til Bandaríkjanna og það er stórkostlegt. Mér finnst það stórkostlegast að við erum saman hérna 2025 á stórmóti."

Natasha hefur fulla trú á því að Sveindís muni blómstra í Bandaríkjunum þar sem hún samdi nýverið Angel City.

Náum að snúa því við
Natasha er í dag leikmaður Vals sem hefur strögglað svolítið í Bestu deildinni í sumar. Liðið er í sjötta sæti með tólf stig eftir tíu leiki sem er langt undir væntingum.

Þær náðu í sigur gegn FH í lokaleiknum fyrir EM. Ertu vongóð um að þið náið að byggja á þessu og rífa ykkur í gang?

„Ég held það. Ég held að við notum þessa pásu til að þjappa okkur saman og spjalla um hluti sem gengu ekki alveg hjá okkur. Við þurfum að taka einn leik í einu og gera það sem við viljum gera. Þetta er nýtt lið og við erum að gera nýja hluti og þetta þarf smá tíma," segir Natasha.

„Það er erfitt að taka einhvern einn hlut sem hefur verið vandamál allt sumarið. Við höfum ekki alveg náð takti en við erum duglegar og erum að gera okkar besta. Þetta hefur verið stöngin út fyrri helminginn en ég held að við náum að snúa því við."

Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir
banner