Tottenham landar Simons - Man Utd hafnar beiðni Mainoo um að vera lánaður - Villa að kaupa Asensio
   fös 29. ágúst 2025 16:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hákon finnur mikinn mun á sér - „Þá er farið strax í númerið"
Hákon Arnar í leik gegn Liverpool á síðasta tímabili.
Hákon Arnar í leik gegn Liverpool á síðasta tímabili.
Mynd: EPA
Hákon hefur verið í tíunni hjá landsliðinu.
Hákon hefur verið í tíunni hjá landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Mynd: EPA
Lille er eitt stærsta félag Frakklands.
Lille er eitt stærsta félag Frakklands.
Mynd: EPA
„Ég pældi í því um daginn að ég er búinn að vera úti í sex ár og þetta er búið að líða svo ógeðslega hratt. Hugsunin að ég sé ekki búinn að búa á Íslandi er svolítið súrrealísk. Ég er mjög sáttur með mig sjálfan að vera kominn á þann stað sem ég er á í dag. Að spila á Anfield og vera í Meistaradeildinni, þetta er það sem maður vill vera að gera," sagði landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson þegar hann ræddi við Fótbolta.net og Livey núna á dögunum.

Hákon er að hefja sitt þriðja tímabil í Frakklandi með Lille en hann var keyptur þangað frá FC Kaupmannahöfn sumarið 2023. Þá var hann aðeins tvítugur. Hann telur sig hafa bætt alla þætti leiksins á tíma sínum með Lille.

„Þetta er allt öðruvísi. Þetta er risa deild," segir Hákon um muninn á Frakklandi og Danmörku. „Ég hef sagt það áður að hún er ógeðslega 'physical' og mikið af hröðum leikmönnum. Maður sér það að félög í ensku úrvalsdeildinni hafa keypt helling af leikmönnum úr frönsku deildinni. Þeir sem hafa spilað í báðum deildum segja að þetta sé líkt. Það er mjög erfitt að spila hérna en mér finnst ég hafa aðlagast mjög vel. Ég var í basli fyrsta tímabilið en það gekk betur á síðasta tímabili og vonandi enn betur núna."

Finnurðu mikinn mun á þér frá því þú komst til Frakklands?

„Ég finn mikinn mun, svo sannarlega. Mér finnst ég hafa vaxið helling sem leikmaður og ég er orðinn betri í nánast öllu. Ég var bara tvítugur þegar ég kom hingað og er að fara inn í þriðja tímabilið núna. Mér finnst ég hafa bætt mig á öllum vígstöðum," segir Hákon.

Franskan er hins vegar ekki alveg á lás. „Franskan er ekki komin. Menn eru ekki alveg nógu sáttir með það. Ég skil mjög mikið en þetta er svo ógeðslega erfitt tungumál að tala. Ég á ekki möguleika. Ég er eiginlega búinn að gefast upp á því en skil mest. Það tala allir ensku hérna. Menn eru misgóðir en ég hef ekki þurft að læra frönsku því það tala allir ensku og þjálfarinn líka."

Fær enn meiri ábyrgð í vetur
Bruno Genesio, þjálfari Lille, hefur talað um það í frönskum fjölmiðlum nýverið að Hákon eigi að vera meiri leiðtogi fyrir liðið.

„Ég var ekki búinn að heyra af þessu, þú ert að segja mér fréttir. Ég held að það séu nánast allir farnir frá því ég kom hingað. Það er mikil endurnýjun hérna. Það eru margir sem koma inn og margir sem fara. Það er skiljanlegt að hann vilji að ég stígi upp. Það er spennandi verkefni að takast á við þetta. Það mun líka hjálpa mér inn í landsliðið. Það hljómar vel að fá meiri ábyrgð," segir Hákon.

Hákon er kominn í tíuna fyrir komandi keppnistímabil, sem er sama númer og hann hefur verið með í landsliðinu. Hákon var áður númer 7 hjá Lille en tók númer 10 þegar það losnaði í sumar.

„Þetta er besta númerið, uppáhaldsnúmerið hennar mömmu. Liðsfélagarnir eru að setja meiri pressu á mann. Maður má varla gera mistök á æfingu og þá er farið strax í númerið. Þetta er bara gaman. Mér finnst þetta besta og stærsta númerið í fótboltanum. Aðalástæðan fyrir því að ég skipti er sú að þetta er uppáhaldsnúmerið hennar mömmu og bara geggjað númer," segir Hákon.

Stefna á að veita PSG samkeppni
Markmiðið hjá Lille er að veita stórliði Paris Saint-Germain samkeppni um franska titilinn.

„Auðvitað er það er alltaf markmiðið og við erum líka með stór markmið í Evrópudeildinni. Við ætlum að reyna að komast mjög langt þar. Það er erfitt að vera í titilbaráttu við besta lið í heimi en við munum alltaf reyna. Það er ekki lélegur leikmaður í þessu liði og þeir eru með geggjaðan þjálfara. Maður sá þá jarða Meistaradeildina og það er erfitt að eiga við þá," segir Hákon en hann stefnir á að gera auðvitað betur en á síðasta tímabili.

„Ég tek þetta bara leik fyrir leik. Ég vil helst gera betur en í fyrra, skora fleiri og leggja upp fleiri mörk," sagði Skagamaðurinn að lokum en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner