mán 02. desember 2019 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Aron um Jóa Harðar: Frábær maður og ástæðan fyrir því að ég var áfram hjá Start
Aron á landsliðsæfingu.
Aron á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Harðarson
Jóhannes Harðarson
Mynd: IK Start
Aron Sigurðarson lék virkilega vel með Start í næstefstu deild í Noregi á leiktíðinni sem senn er að klárast. Liðið endaði í 3. sæti í deildinni og er því í umspili um laust sæti í efstu deild.

Í gær sigraði Start lið KFUM í úrslitaleik næstefstu deildar í umspilinu. Liðið mætir því Lilleström, liðinu sem endaði í þriðja neðsta sæti efstu deildar, í tveimur úrslitaleikjum um sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Leikið er heima og að heiman þann 7. og 11. þessa mánaðar.

Sjá einnig:
Aron Sig: Er að eiga mitt langbesta tímabil sem atvinnumaður

Í samtali við Fótbolta.net í gær kom Aron inn á það að það hefði alls ekki verið öruggt að hann yrði leikmaður Start árið 2019.

„Ég fékk fréttir eftir tímabilið að ég væri ekki inn í myndinni hjá þjálfaranum og mætti fara annað. Það var því alls ekki pottþétt að ég myndi spila með Start á þessari leiktíð."

Í aprílmánuði urðu þjálfaraskipti hjá Start Jóhannes Harðarson tók við sem aðalþjálfari til bráðabirgða.

Jóhannes hafði verið aðstoðarmaður þjálfarans sem var rekinn. Hann hafði verið alls tvö ár í starfi hjá Start áður en hann tók við sem aðalþjálfari. Hvernig þjálfari er Jóhannes og hvað breyttist með hans innkomu?

„Jói er frábær maður og frábær þjálfari, hann hafði mjög góð áhrif á liðið og hefur liðið tekið mjög miklum framförum eftir að hann tók við," sagði Aron við Fótbolta.net

„Þá hefur hann haft mikil áhrif á tímabilið hjá mér og hjálpað mér mikið. Ég hefði aldrei spilað með Start á þessu tímabili ef Jói hefði ekki tekið við liðinu."

Í júlímánuði var tilkynnt að Jóhannes yrði ráðinn þjálfari Start út leiktíðina og í október var samningur hans framlengdur fram á árið 2021.

Tilnefndur sem besti leikmaður deildarinnar
Fyrir rúmri viku síðan var tilkynnt að Aron hefði verið tilnefndur sem leikmaður tímabilsins í næstefstu deild í Noregi. Leikmaður úr sitthvoru toppliðinu koma auk Arons til greina sem besti leikmaðurinn.

„Við erum þrír tilnefndir, einn úr hverju af þremur efstu liðunum. Ég býst við að annar hvor úr efstu liðunum taki þetta. Þetta kemur samt allt í ljós á morgun, hvað veit maður?"

Aron kemur inn á að þetta komi í ljós á morgun. Valið verður tilkynnt á verðlaunahátíð í Osló annað kvöld.

Sest niður eftir umspilsleikina
Fréttaritari spurði Aron að lokum út í framtíðina og hvort hann vildi gefa eitthvað upp um hana. Aron á tvö ár eftir af samningi sínum við Start.

„Það verður skoðað eftir umspilið."

„Við eigum tvo leiki eftir þar og svo ræði ég málin með mínum umboðsmanni og met stöðuna,"
sagði Aron að lokum.

Sjá einnig: Aron Sig: Er að eiga mitt langbesta tímabil sem atvinnumaður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner