Wharton til Real Madrid - Chelsea vill Vini - Sunderland horfir til Barcelona - Sterling að losna úr prísundinni?
   sun 04. janúar 2026 21:47
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Inter hefndi sín á heimavelli - Torino vann
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Síðustu tveimur leikjum dagsins er lokið í efstu deild ítalska boltans þar sem Inter endurheimti toppsætið með sannfærandi sigri á Bologna.

Inter tapaði viðureign liðanna í undanúrslitum ofurbikarsins eftir vítaspyrnukeppni fyrir jól en í dag spilaðist leikurinn öðruvísi. Heimamenn í Inter stjórnuðu ferðinni og tók Piotr Zielinski verðskuldaða forystu á 39. mínútu, eftir sendingu frá fyrirliðanum Lautaro Martínez.

Inter sýndi áfram yfirburði í síðari hálfleik og tvöfaldaði Lautaro forystuna með skalla eftir hornspyrnu frá Hakan Calhanoglu í upphafi síðari hálfleiks.

Marcus Thuram innsiglaði svo sigurinn með þriðja markinu á 74. mínútu, með skalla eftir hornspyrnu frá Federico Dimarco.

Gestirnir frá Bologna minnkuðu muninn á lokakaflanum þegar hinn eftirsótti Santiago Castro skoraði eftir aukaspyrnu frá Charalampos Lykogiannis, en þeir komust ekki nær. Lokatölur urðu 3-1.

Inter er með 39 stig eftir 17 umferðir, einu stigi meira heldur en nágrannarnir í liði AC Milan og tveimur meira heldur en Ítalíumeistarar Napoli.

Bologna situr eftir í sjöunda sæti, með 26 stig.

Fyrr í dag hafði Torino betur gegn Verona. Giovanni Simeone skoraði eftir tíu mínútur og voru gestirnir óheppnir að bæta ekki marki við fyrir leikhlé.

Heimamenn í Verona voru sterkari aðilinn eftir leikhlé en Torino hélt forystunni allt þar til á lokakaflanum. Leikmenn Verona lögðu þá meira púður í sóknarleikinn sem skapaði pláss á hinum enda vallarins og nýttu leikmenn Torino sér það til hins ítrasta.

Cesare Casadei og Alieu Njie, sem komu báðir inn af bekknum á lokakaflanum, gerðu sitthvort markið á lokamínútum leiksins til að innsigla sigur Torino.

Torino er um miðja deild með 23 stig eftir 18 umferðir. Verona er í fallsæti með 12 stig eftir 17 umferðir.

Inter 3 - 1 Bologna
1-0 Piotr Zielinski ('39 )
2-0 Lautaro Martinez ('48 )
3-0 Marcus Thuram ('74 )
3-1 Santiago Castro ('83 )

Verona 0 - 3 Torino
0-1 Giovanni Simeone ('10 )
0-2 Cesare Casadei ('87 )
0-3 Alieu Njie ('90 )
Athugasemdir
banner