Árið 1987 vann Fylkir 3. deildina gömlu með miklum yfirburðum. Félagið fór taplaust í gegnum mótið og gerði einungis eitt jafntefli. Á þessum tíma var Marteinn nokkur Geirsson að byggja upp lið sem skilaði Fylki upp í 1. deild árið 1988 í fyrsta skipti í sögu félagsins.
Mismikill glæsibragur var þó yfir sigrum liðsins eins og gengur og þó að mótið hafi unnist með nokkrum yfirburðum þá voru kaflar á tímabilinu sem að önnur lið áttu góða möguleika í baráuttunni.
Einn af úrslitaleikjum sumarsins var á Kópavogsvelli gegn heimamönnum úr ÍK (síðar HK) sem þóttu líklegir til afreka þetta sumarið.
Þá ber svo við að þegar leikmenn eru að undirbúa sig fyrir leikinn inni í búningsklefa að inn í klefann gengur einn af frammámönnum íslenskrar knattspyrnu í gegnum tíðina, Grétar Norðfjörð að nafni. Þar tilkynnir hann leikmönnum með hátíðarsvip að sá mikli heiður hafið hlotnast liðunum að einn af fremstu dómurum hennar hátignar Bretadrottningar hafi farið þess á leit við KSÍ að fá að dæma þennan mikilvæga 3.deildarleik. Hrærðir af stolti þáðu forráðamenn félaganna þetta höfðinglega boð.
Og hófst nú leikurinn. Sólin skein á iðagrænan völlinn og áhorfendur, sem væntanlega hafa verið á bilinu 50-100, biðu spenntir eftir að sjá toppliðin etja kappi undir styrkri stjórn Bretans. Fyrstu mistök dómarans fóru ekki illa í menn sem litu svo á að líklega væri dómarinn þreyttur eftir langt ferðalag frá Bretlandi auk þess sem hann þyrfti ákveðna aðlögun þar sem hann væri vanur nattspyrnu í hærri gæðaflokki en þá er hér var borin fram.
En þegar lengra leið á leikinn fækkaði afsökunum fyrir slakri frammistöðu Bretans og steininn tók úr þegar að langt var liðið á leikinn í stöðunni 1-1. Eftir stympingar lá leikmaður Fylkis, Baldur Bjarnason, flatur í teig andstæðinganna ásamt fleirum. Eins og svo oft í svona stöðu vildi Baldur meina að brotið hafið verið á sér og í bræði sinni slengir hann hendi til knattarins með þeim afleiðingum að hann þeytist í mark andstæðinganna. Flestir bjuggust við að þarna yrði dæmd hendi á Baldur og hann heppinn að sleppa við áminningu. Öllum nema Bretanum, sem tók sig til og dæmdi mark á ÍK menn.
Upphófst nú mikil rekistefna. ÍK menn brugðust eðlilega reiðir við sem varð til þess að Bretinn ráðfærði sig við línuvörð. Að þeim fundi loknum dæmdi hann markið af. Fylkismenn höfðu fylgst með rólegir hingað til , enda flestir vitni að því að markið var skorað með vafasömum hætti svo ekki sé meira sagt.
Þá var það sem það gerðist. Til sögunnar er kynntur Gunnar Orrason, öflugur framherji í Fylkisliðinu á þessum tíma. Gunnar hafði á þessum tíma verið í Fylki í tvö keppnistímabil og setningarnar sem hann hafði mælt á íslenska tungu þann tíma eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þessvegna eru orð kappans við Bretann á þessari stundu enn í minnum höfð. Þessi rólyndismaður geysist sem sagt fram með látum eins og sá sem valdið hefur og segir með þykkum Yorkshire hreim: "According to FIFA law, when you give a goal, you give a goal and you cannot change it"
Skemmst er frá því að segja að Bretinn hreinlega ringlaðist af virðingu við þennan speking sem nú hafði blandað sér í umræðuna. Hann grípur nú til flautunnar og líkt og frelsaður maður flautar hann mark Baldurs gilt að nýju af mikilli sannfæringu. Nú var vitanlega fjandinn laus og að fylgjast með Bretanum í rimmu sinni við ÍK menn í framhaldinu var ekki auðvelt fyrir menn með hreina samvisku, enda var tekið sérstaklega eftir því þegar að þjálfari Fylkisliðsins lét sig hverfa á bakvið varamannatjald til að kveikja sér í vindli á meðan að átökin stóðu sem hæst. En markið stóð og Fylkismenn komnir yfir. ÍK menn gerðu sig líklega til að ganga að leikvelli en fyrir náð og miskunn féllust þeir á að halda leiknum áfram. Grétar Norðfjörð fylgdist hnípinn með gangi mála í öruggri fjarlægð.
Fylkismenn unnu þennan leik, en óhætt er að segja að allur vindur hafi verið úr báðum liðum við atburðinn. Þarna sannaðist hið fornkveðna að upphefðin þarf ekki alltaf að koma að utan. Að auki kom í ljós að innan raða Fylkisliðsins leyndist enskumælandi sérfræðingur í málefnum Alþjóða knattspyrnusambandsins. Ekki er vitað hvort viðkomandi hefur nýtt sér þekkingu sína frekar á þessu sviði, en síðast þegar að vitnaðist starfaði hann sem rafvirki í Reykjavík.
Athugasemdir