Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson opinberaði landsliðshóp sinn sem mætir Aserbaídsjan og Úkraínu í síðustu tveimur leikjum liðsins í undankeppni fyrir HM 2026.
Tvær breytingar eru á hópnum frá síðasta verkefni. Sævar Atli Magnússon er ekki með vegna hnémeiðsla og inn fyrir hann kemur Jóhann Berg Guðmundsson. Þórir Jóhann Helgason dettur þá úr hópnum og Hörður Björgvin Magnússon kemur inn.
Fótbolti.net ræddi við Arnar eftir að hann kynnti hópinn.
„Hausverkurinn er kannski aðeins farinn að minnka. Þetta er orðinn kjarni núna sem við höfum verið að leitast eftir og hafa staðið sig mjög vel. Síðan detta alltaf einhverjir út vegna meiðsla en hópurinn í þetta sinn er í mjög góðu jafnvægi. Við erum búnir að fylla vel í allar stöður, með tveimur leikmönnum í hverja. Ég er mjög ánægður með hópinn.“
Jóhann Berg og Hörður búa báðir yfir mikilli reynslu, sem gæti reynst dýrmæt þegar á botninn er hvolft.
„Þeir hafa 'been there and done that', hafa báðir vera nálægt því að komast á stórmót og báðir komist á HM og EM. Þeirra reynsla verður dýrmæt í þessum glugga. Þetta verður snúið, spennustigið verður hátt. Leikmenn vilja gera vel og leggja mikið á sig, en stundum þarf aðeins að hafa andlegu hliðina í lagi og vera minnugir þess hvað það þarf lítið til svo að allt fari til fjandans. Svo eru þeir ennþá báðir frábærir fótboltamenn.“
Arnar segir markmiðið fyrir verkefnið vera skýrt.
„Við skiptum þessu niður, við ætlum að vinna Aserbaídsjan. Fara svo glaðir og horfum á leik Frakka og Úkraínumanna, sem verður tveimur tímum seinna. Við sjáum Frakka tryggja sér sæti á HM og þá vitum við hvað við þurfum að gera í Varsjá. Stig dugir, sem verður ærið verkefni. En mín skilaboð núna er að við þurfum að byrja á Aserbaídsjan og skoðum framhaldið eftir þann leik.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan, þar er nánar rætt við Arnar um einstaka leikmenn og leikina tvo.























