Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 21:38
Ívan Guðjón Baldursson
Collina vill VAR fyrir hornspyrnur á HM
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pierluigi Collina, forseti dómaramála hjá FIFA, er hlynntur því að nýta VAR-kerfið til að skera úr um hvort eigi að dæma hornspyrnu eða markspyrnu hverju sinni.

Collina vill að þetta kerfi verði innleitt á HM í Norður-Ameríku sem fer fram á næsta ári en hann ræður því ekki sjálfur.

IFAB sér um að samþykkja lög og reglur í fótboltaheiminum og mun funda í næsta mánuði til að staðfesta reglugerðina fyrir heimsmeistaramótið. Þar verður rætt um VAR fyrir hornspyrnur, en tillagan verður ekki samþykkt nema það takist að tryggja að hún valdi engum aukalegum leiktöfum.

„Það er synd þegar úrslit leikja ákvarðast af slæmri ákvörðun dómara. Hornspyrnur geta skipt sköpum," segir Collina meðal annars. „Ég held að markmiðið verði að vera að taka réttar ákvarðanir innan vallar. Þetta markmið er ástæðan fyrir því að við byrjuðum að skoða tækninýjungar fyrir um 13 til 14 árum síðan. Ef okkur tekst að innleiða VAR fyrir hornspyrnur þá tel ég það vera jákvæða þróun.

„Við viljum innleiða þessa tækni með það að leiðarljósi að hún auki ekki leiktafir sem þegar skapast útaf VAR-kerfinu sem er í notkun. Vanalega fara miðverðir alla leið í vítateig andstæðinganna í hornspyrnum, tíminn sem það tekur þá að fara upp völlinn verður að nægja til að taka ákvörðun í VAR-herberginu."


Önnur möguleg nýjung fyrir heimsmeistaramótið er sú að VAR geti skorist inn í til að breyta ákvörðun dómara sem gefur leikmanni seinna gula spjaldið. Hingað til hefur VAR einungis verið notað fyrir bein rauð spjöld, en í framtíðinni gæti það líka verið notað í tilfelli tveggja gulra spjalda. Þetta er önnur regla sem verður rædd á fundi IFAB í janúar.
Athugasemdir