Lyngby vann Framad Amager í NordicBet deildinni í Danmörku í gær en leiknum lauk með 0-3 útisigri Lyngby. Liðin tvö eru að berjast á ólíkum stað í deildinni.
Undirbúningurinn fyrir leikinn var þó mjög erfiður og mun vera það eitthvað áfram í framhaldinu. Eiginkona fyrirliða Lyngby, Marcel Römer, lést á mánudaginn síðastliðinn.
Römer minnist konu sinnar, Cecile, á Instagram en færslu hans má sjá neðst í fréttinni. Þar skrifar hann á meðal annars: „Hjarta mitt er brotið, þetta átti aldrei að gerast. Þú átt þetta ekki skilið, núna er ég að hugsa um drauma okkar og markmið sem par og fjölskylda. Við náðum þeim ekki.
Það er sárt að hugsa til þess að yndislegu börnin þín skuli ekki alast upp með sinni mögnuðu móður. Allar ákvarðanir mínar í framtíðinni verða með það markmiði að gera þig stolta. Börnin þín eru í góðum höndum. Ég elska þig óendanlega mikið og mun alltaf gera, þangað til við hittumst aftur.“
Freyr Alexanderson, þjálfari Lyngby, var í viðtali fyrir sigurleikinn í gær og segir hann að hópurinn hafi þjappast mjög mikið saman í kjölfar þessara harmleiks.
„Við höfum unnið mikið í samheldni í okkar liði frá byrjun og núna erum við að upplifa eitthvað sem er á allt öðru leveli. Við færumst enn nær saman sem lið og þá sérstaklega sem manneskjur," sagði Freyr.
„Það getur enginn sett sig í stöðu Marcel's núna og síðustu dagar hafa verið súrrealískir. Hugur okkar er að sjálfsögðu hjá Marcel, börnunum og fjölskyldunni, en við finnum styrk í því að finna hversu mikils virði Marcel er fyrir okkur og hversu mikils virði hópurinn, starfsfólkið og félagið er fyrir Marcel."
„Við höfum ekki einbeitt okkur að fótbolta undanfarna daga, við höfum ekki æft svo mikið því það hafa verið hlutir sem hafa verið mikilvægari, en auðvitað erum við tilbúnir í leikinn.“
Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR, var einn þeirra sem senti Marcel kveðju en hann skrifaði á færslu hans á Instagram.