Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mið 05. maí 2021 14:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fengum á baukinn í fyrra og þurfum að læra af því"
Lengjudeildin
Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV.
Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá ÍBV á undirbúningstímabilinu.
Úr leik hjá ÍBV á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Vestmannaeyingar náðu ekki að fara upp í fyrra.
Vestmannaeyingar náðu ekki að fara upp í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Aron Sigurbjörnsson.
Eiður Aron Sigurbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Pétur Lýðsson.
Guðjón Pétur Lýðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gary Martin.
Gary Martin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi og Ian Jeffs, þjálfarar ÍBV.
Helgi og Ian Jeffs, þjálfarar ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst bara ágætlega á það, við ætlum okkur stóra hluti í sumar," segir Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Fótbolta.net.

ÍBV er spáð efsta sæti Lengjudeildarinnar alveg eins og í fyrra.

„Það er markmið ÍBV að komast upp. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikið verk að vinna og alls ekki létt, en við ætlum okkur stóra hluti og leggjum okkur alla fram í átt að því."

Hvernig hefur veturinn gengið í Vestmannaeyjum?
Íslenska undirbúningstímabilið er langt og strembið. Hvernig hefur gengið í Vestmannaeyjum í vetur?

„Það hefur gengið nokkuð vel. Það fór hægt af stað, við fengum erlendu leikmennna seinna inn en í fyrra og við vorum komnir með liðið saman seinna inn en fyrir ári síðan. Það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur og við höfum verið þokkalega öflugir í undanförnum leikjum."

ÍBV spilaði við Kórdrengi í Mjólkurbikarnum síðasta laugardag og úr varð skemmtilegur leikur.

„Það var búið að ganga mikið á vikuna á undan, og það var kannski erfitt að fara inn í þennan leik andlega en við gerðum það sem gera þurfti - að komast áfram. Við þurftum að leggja okkur alla fram gegn góðu liði Kórdrengja. Það er lið sem er búið að styrkja sig mikið ásamt öðrum liðum í Lengjudeildinni. Þetta var erfiður leikur en við fórum áfram og það var það mikilvægasta."

Fóru langt í Mjólkurbikarnum í fyrra
ÍBV fór langt í Mjólkurbikarnum í fyrra, nánar tiltekið alla leið í undanúrslitin. Keppninni var slaufað þegar komið var í undanúrslitin vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við fórum eins langt og við gátum farið. Við erum eitt af fjórum liðum sem eru svekkt með að bikarnum hafi verið hætt í fyrra. Það var búið að ganga vel í þeirri keppni og við hefðum auðvitað viljað klára hana," segir Helgi.

„Nú er bara bikarinn 2021 byrjaður og við erum búnir að fara áfram í tveimur umferðum. Við ætlum okkur góða hluti þar. Við förum í hvern einasta leik með það að markmiði að vinna, það er sama hvort það sé í bikar eða deild. Það verður margt að ganga svo úrslitin detti inn, menn verða að leggja sig fram."

Reynslunni ríkari frá því í fyrra
Tímabilið í fyrra hjá Vestmannaeyingum voru mikil vonbrigði og enduðu þeir að lokum um miðja deild. Helgi segir að Eyjamenn séu reynslunni ríkari frá því í fyrra.

„Þetta er erfið deild sem við erum að fara í. Það eru mörg lið sem hafa styrkt sig og mörg lið sem ætla sér upp. Við erum reynslunni ríkari frá því í fyrra og vonandi náum við að gera það sem ætlum okkur; að fara upp."

„Það voru vonbrigði að komast ekki upp (í fyrra). Það gekk vel í bikar og við byrjuðum deildina vel. Við gerðum svo alltof mikið af jafnteflum. Jafnteflin gefa lítið. Við vorum ekki að ná þeim dampi sem við vildum, sérstaklega um miðbik móts. Vonbrigðin urðu stór. Þetta fer í reynslubankann hjá okkur, hvort sem það eru stjórnamenn, þjálfarar eða leikmenn. Við erum reynslunni ríkari. Við verðum að taka þessari deild alvarlega, það er alveg sama hvar okkur er spáð. Leikirnir vinnast inn á vellinum og við verðum að vera klárir það."

Það virðist vera samróma álit um að deildin sé sterkari í ár en í fyrra. „Það eru mörg lið búin að bæta vel við sig. Maður hefur heyrt að það eru mörg lið sem ætla upp. Þetta verður mjög erfitt, það er erfitt að fara upp úr þessari deild. Maður verður að vera einbeittur allt sumarið og það má hvergi slaka. Ef við höldum fókus og erum jákvæðir í þessu þá eigum við að vera með lið til að berjast um þetta."

Hafa bætt við sig fallbyssum
ÍBV hefur bætt öðrum fallbyssum í vopnabúrið en einnig misst leikmenn. Þessi spá var gerð áður en Gary Martin var rekinn frá félaginu en hún breytist þó líklega ekki neitt við það. Eiður Aron Sigurbjörnsson og Guðjón Pétur Lýðsson eru á meðal leikmanna sem hafa samið við ÍBV í vetur. Verða þessir leikmenn ekki bara "svindlkallar" í sumar?

„Vonandi verða þeir það," segir Helgi og bætir við: „Það er núið sem skiptir máli. Þeir hafa verið frábærir fyrir íslenskan fótbolta undanfarin ár en þeir þurfa að standa sig - eins og allir aðrir - í sumar. Ef þeir gera það, þá er það góðs viti. Þeir hafa sýnt okkur undanfarið að þeir eru heldur betur tilbúnir í þetta."

„Eiður kemur inn með mikla reynslu og er Eyjamaður í huð og hár. Hann sættir sig ekki við annað en að ná árangri í þessu liði. Guðjón Pétur er mjög drífandi einstaklingur og ætlar sér stóra hluti. Það er frábært að fá þessa leikmenn, á því liggur enginn vafi. Þetta eru leikmenn sem hafa staðið sig mjög vel í mörg ár og hafa getuna til að hjálpa ÍBV."

„Það þurfa allir að leggjast á eitt. Við þurfum að hafa alla klára og erum þokkalega brattir. Við höfum líka misst menn, þá nokkra. Það hafa margir góðir komið inn en líka margir farið út."

Er hópurinn sterkari en hann var á síðustu leiktíð?

„Hann er öðruvísi. Það er margt sterkara við hann. Við erum með minni æfingahóp en við vorum með í fyrra. Breiddin er ekki eins mikil en við erum þéttari og samstilltari. Við erum tilbúnir í bátana og það stríð sem framundan er. Þetta verður mjög erfið deild og við gerum okkur grein fyrir því. Við fengum á baukinn í fyrra og þurfum að læra af þeirri reynslu."

Gary Martin málið
Það kom upp leiðinlegt mál í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Gary Martin var rekinn frá félaginu. Samningi Gary við ÍBV var rift í kjölfar agabrots en liðsfélagi hans kærði hann fyrir að dreifa nektarmynd af sér.

Hann mun spila með Selfossi í sumar. Helgi segir að þetta hafi verið erfitt mál.

„Það er náttúrulega eitthvað sem maður vill vera án, það er engin launung. Það mál er bara búið núna og núna er bara horft fram á við. Það var frábært að fá þennan sigur gegn Kórdrengjum í kjölfarið á þessu. Síðasta vika var erfið en núna er hún búin og núna er öll einbeiting á deildinni. Við byrjum á tveimur mjög erfiðum leikjum gegn Grindavík og Fram og við þurfum að vera klárir þar."

„Auðvitað var þetta leiðindarmál, fyrir félagið, leikmennina og alla sem komu að því. En núna er bara horft fram á við, en ekki baksýnisspegilinn. Við sjáum til þess að allt svona þétti hópinn enn frekar saman, og ég á ekki von á neinu öðru en að það gerist."

Fréttaritari spurði þá Helga hvort hefði ekki komið til greina að sætta málið inn á skrifstofu félagsins. „Ég hef enga stjórn á því. Þú verður að ræða það við aðra. Ég er bara þjálfari liðsins. Menn hafa verið mjög duglegir að æfa í vetur og ég er mjög sáttur við þá stráka sem ég er með. Við erum nokkuð brattir."

Sóknarmaðurinn hávaxni Stefán Ingi Sigurðarson kom á láni til ÍBV frá Breiðablik. Hann á að fylla skarðið sem Gary skilur eftir sig, en því miður meiddist hann í fyrsta leik gegn Kórdrengjum. Ekki er vitað hversu lengi hann verður frá.

„Stefán Ingi var hugsaður sem viðbót strax þegar Gary fer. Hann meiðist gegn Kórdrengjum og verður frá í einhvern tíma, við verðum að sjá hversu langur tími það er. Það er ekki gott en það er hluti af fótbolta. Hann meiddist strax á fimmtu mínútu. Við verðum að sjá hvað gerist með hann á næstu dögum."

Helgi segir að það sé möguleiki á því að hópurinn verði styrktur áður en glugginn lokar en það sé ekki öruggt í hendi hvað það varðar, markaðurinn sé erfiður akkúrat núna.

Ætla sér upp í annarri tilraun
Það er eitt markmið í Eyjum í sumar og það er að fara upp í Pepsi Max-deildina.

„Við gerum þá kröfum um að við séum að berjast um að fara upp. Við teljum okkur vera með mjög gott lið. Svo þurfum við að sýna það inn á vellinum. Með stuðningi áhorfenda og allra hérna á eyjunni þá teljum við okkur geta náð því markmiði. Við höfum æft vel í vetur og úrslitin hafa verið fín undanfarið. Við erum búnir að undirbúa okkur eins vel og hægt er, svo verðum við að vera klárir þegar Íslandsmótið hefst. Eins og segi, það eru mörg góð lið sem ætla sér þetta og það eru örugglega mörg lið fegin því að okkur sé spáð efsta sætinu en ekki þeim," sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV.
Athugasemdir
banner
banner
banner