Fannst merkilegt að hann væri að láta hafa þessa hluti eftir sér í fjölmiðlum
Lúkas Logi Heimisson gekk í síðustu viku í raðir Vals frá uppeldisfélagi sínu Fjölni. Lúkas er nítján ára sóknarmaður og vöktu félagaskipti hans talsverða athygli þar sem hann fór í verkfall í aðdraganda skiptanna.
Unglingalandsliðsmaðurinn ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
Unglingalandsliðsmaðurinn ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
Fórstu inn í veturinn með þá nálgun að það væri kominn tími til að spila í efstu deild eða kom alveg til greina að taka tímabil í viðbót í Lengjudeildinni?
„Markmið mitt var alltaf skýrt, að standa mig og að taka skrefið upp á við. Ég geri ávallt kröfur til mín um að bæta mig, það að fara upp í efstu deild var tímabært þar sem að Fjölnir fór ekki upp um deild," sagði Lúkas.
Hvenær fórstu að heyra af áhuga úr efstu deild og að það væri verið að bjóða í þig?
„Allt síðasta sumar hef ég verið að heyra um áhuga frá topp liðum í efstu deild, sá áhugi gerði gott fyrir mig og hélt mér á tánum. Svo var ég að heyra óbeint af einhverjum nálgunum og fyrirspurnum um mig."
„Meira og minna síðan mitt síðasta tímabil hef ég verið að heyra óbeint af áhuga annarra liða og um tilboð sem hafi verið gerð."
Sjá einnig:
Staðfestir að Lúkas Logi sé í verkfalli - „Vanvirðing við félagið"
Eina úrræðið sem ég gat beitt
Hvað leiddi til þess að þú fórst í verkfall?
„Að hætta að mæta á æfingar var bara alveg loka úrræði, sem vissulega maður á ekki að gera, en það var bara eina úrræðið sem að ég gat beitt til þess að reyna að hafa áhrif á stöðu mína."
Fannst þér Fjölnir vera ósanngjarnt í sinni nálgun?
„Frá mínu sjónarhorni fannst mér það, en það leystist loks á endanum með þessum aðgerðum mínum sem hefðu með öllu verið óþarfar að mínu mati."
Var það erfið ákvörðun?
„Já, það var ekki auðveld ákvörðun að hætta að mæta á æfingar og að bregðast hópnum þar sem að ég hef þekkt flesta síðan ég var krakki, enda er þetta uppeldisfélagið mitt. Ég fann þó fyrir miklum stuðningi í kringum mig með þessa ákvörðun mína."
Hvernig leið þér þegar þú tókst þá ákvörðun og þá daga sem það var í gangi?
„Bara mjög erfitt og sérstaklega þegar að málið var komið í fjölmiðla."
Hvernig var að heyra umfjöllun um sig í hlaðvörpum og viðtal frá formanni Fjölnis um þig?
„Að mestu leyti fannst mér umfjöllunin úr hlaðvörpum vera jákvæð í minn garð og það studdi mig í því að ég hafi tekið rétta ákvörðun varðandi mína framtíð á þessum tímapunkti."
„Mér fannst merkilegt að hann væri að láta hafa þessa hluti eftir sér í fjölmiðlum, en það kom samt lítið á óvart."
Nálægt því sem gert er hjá atvinnumannafélögum erlendis
Hvernig líður þér að vera kominn í Val?
„Ég er verulega sáttur og líst mjög vel á þjálfarateymið og hópinn."
„Þar er verið að æfa eins nálægt því sem gerist hjá atvinnumannafélögum erlendis, eins og ég hef kynnst út á Ítalíu. Þetta er félag með langa sögu, marga titla og með há markmið þar sem ávallt er stefnt á að vinna titla."
Varstu strax spenntur þegar þú vissir af áhuga félagsins?
„Já, ég var það um leið og ég fór að kynna mér plön þeirra, áherslur þjálfarans og hvernig þeir æfa."
Hvaða væntingar geriru til komandi tímabils?
„Ég set mér há markmið eins og alltaf sem og liðið allt. Ég býst við því að vera í mikilvægu hlutverki í sumar og ætla mér það."
Helduru að það sé auðveldara að vekja áhuga erlendra félaga með því að spila hjá Val en hjá Fjölni?
„Já, það er annað að spila í topp liði í efstu deild."
Það er væntanlega markmiðið að fara aftur út einhvern tímann?
„Já, það hefur alltaf verið markmiðið hjá mér að standa mig fyrir liðið og vekja þannig áhuga erlendis frá," sagði Lúkas Logi.
Athugasemdir