Andri Fannar Baldursson er í U21 landsliðinu fyrir komandi leiki. Hann mun æfa með A-landsliðinu í vikunni.
Á fréttamannafundi Age Hareide í dag sagði norski landsliðsþjálfarinn frá því að tveir leikmenn myndu æfa með landsliðinu á næstu dögum. Þeir eru þó ekki í 25 manna leikmannahópi fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal seinna í þessum mánuði.
25 valdir í landsliðshópinn
25 valdir í landsliðshópinn
Leikmennirnir eru Kolbeinn Birgir Finnsson hjá Lyngby og Andri Fannar Baldursson sem lék með NEC Nijmegen á láni frá Bologna í vetur. Kolbeinn er örvfættur leikmaður sem mest spilaði í vinstri vængbakverði eftir komu sína til Lyngby í vetur. Andri Fannar er miðjumaður.
Age var spurður hvort leikmenn í Bestu deildinni hefðu verið nálægt því að fá kallið.
„Ég hef horft á suma leikmenn í deildinni, farið á fjóra leiki og séð menn spila, ætla ekki að nefna neina leikmenn. Ég hef verið að horfa á varnarmenn. Ég fékk spurningu áðan á fundinum hvort að það vantaði upp á breidd varnarlega, það gæti verið. Við höfum Finnsson á æfingum með okkur. Ég spurði Jóa Kalla út í að fá hann inn til að skoða hann nánar. Ég hef séð hann spila með Lyngby, fengið skýrslur frá manni sem skoðar sænskan, danskan og norskan fótbolta fyrir mig. Kolbeinn er áhugaverður leikmaður. Við þurfum að finna leikmenn sem geta unnið sér leið inn í hópinn."
„Hann og Baldursson munu æfa með okkur í þessari viku. Andri Fannar hefur æft með hópnum áður, ég hef ekki séð mikið af honum þar sem hann er búinn að vera á bekknum hjá NEC. Ég er búinn að tala við Lasse Schöne, minn fyrrum lærisvein í danska landsliðinu, og hann hrósaði honum. Ég vil sjá hann á æfingum og skoða hann nánar," sagði Age.
Mikael fékk högg á hnéð
Fram kom á fundinum að Mikael Neville Anderson, leikmaður AGF, hefði fengið högg á hnéð í leik með AGF á sunnudag. „Læknirinn okkar er í samskiptum við lækninn þeirra. Við sjáum í vikunni hvernig verður með hann. Hann er í Danmörku sem stendur, við verðum að bíða og sjá. Það er gott að vera með 25 leikmenn, þá þurfum við ekki að kalla menn inn í hópinn. Vonandi verður í lagi með Mikael."
Athugasemdir