Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 06. júlí 2020 14:15
Magnús Már Einarsson
Kári ósáttur við reglur: Verður að vera hægt að gera eitthvað
Kári labbar af velli gegn KR.
Kári labbar af velli gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason, varnarmaður Víkings, er ósáttur við að ekki sé hægt að áfrýja rauðum spjöldum í Pepsi Max-deildinni. Kári lék í áraraðir á Englandi þar sem hægt er að áfrýja spjöldum.

Kári fékk að líta rauða spjaldið gegn KR um helgina hjá Helga Mikael Jónassyni dómara líkt og Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðarson. Miðverðirnir þrír verða allir í leikbanni þegar Víkingur mætir Val á miðvikudaginn.

„Mitt spjald yrði aldrei tekið til baka en hin tvö spjöldin eru það mikið út úr kortinu að það verður að vera hægt að gera eitthvað í þessu. Ég skil þetta ekki. Þetta dómarateymi getur ekki dæmt fleiri leiki í þessari deild. Ég veit ekki hvað gerðist hjá honum greyinu," sagði Kári við Fótbolta.net í dag.

„Fótboltamenn gera mistök eins og allir aðrir. Ef ég geri mistök þá lyfti ég hendinni upp, viðurkenni það og afleiðingarnar eru kannski þær að þú tapaðir leiknum. Þú þarft að lifa með því að hafa tapað leiknum fyrr liðið þitt sem er versta tilfinning sem þú færð og svo þarftu kannski að horfast í augu við það að vera tekinn úr liðinu fyrir næsta leik. Fótboltamenn takast á við mistökin þannig. Dómarar stíga aldrei fram og viðurkenna eitt né neitt. Stundum mættu þeir vera mannlegir og segja: 'Ég er búinn að horfa á þetta aftur og þetta eru skelfileg mistök að minni hálfu," segir Kári og bætir við að mikill munur sé á íslenskum og erlendum dómurum.

„Í leikjum á Íslandi er ekki hægt að tala við dómara á jafnréttisgrundvelli. Þú færð góða dómara í landsleikjum og stærri deildum og þeir eru tilbúnir að spjalla við þig um öll hemisins mál. Ég hef margoft lent í því þegar maður vill fá víti í horni að þá segja þeir 'Það gæti verið að ég hafi klikkað á þessu' eða 'mér fannst þetta ekki vera víti.' Það er í góðu lagi og þannig heldurðu mönnum góðum. Ekki hleypa leikjunum upp í svona eitthvað rugl. Þeir hafa enga tilfinningu fyrir því hvernig þeir eiga að stjórna leikmönnum inni á vellinum. Það kemur ekki með því að dómararnir standi allir saman og segja að allt sé rétt sem þeir gera inni á vellinum. Það er ekki þannig og það vita það allir sem eru litaðir. Ég er að reyna að horfa á þetta hlutlaust enda skil ég að hann hafi fallið í gryfjuna með mig. Hin tvö rauðu spjöldin eru það fáránleg að það verður að taka þessa umræðu og það verður að vera hægt að áfrýja og gera eitthvað í þessum málum," sagði Kári að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner