Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 06. október 2021 19:50
Brynjar Ingi Erluson
Mike Ashley að ganga frá sölu á Newcastle
Mynd: Getty Images
Fjárfestingahópur frá Sádi-Arabíu hefur komist að samkomulagi við Mike Ashley um kaup á Newcastle United og er búist við því að gengið verði frá helstu smáatriðum á næstu 24 klukkustundum en það er Guardian sem greinir frá.

Ashley keypti Newcastle fyrir fjórtán árum en hefur brugðist félaginu og þá hefur stór hluti stuðningsmanna kallað eftir því að hann selji félagið.

Það er nú að verða að veruleika en fjárfestingahópur frá Sádi-Arabíu hefur komist að samkomulagi við Ashley um kaup á félaginu og þá mun enska úrvalsdeildin heimila kaupin.

Þessar fregnir koma stuttu eftir að ríkisstjórnin í Sádi-Arabíu aflétti fjögurra ára banni bein Sports um að sýna frá ensku úrvalsdeildinni og leikjum á vegum UEFA og FIFA. Þá hefur stjórnin lofað því að loka síðum sem streyma leikjunum á ólöglegan hátt.

Það spilar stóra rullu því að enska úrvalsdeildin ætlar að heimila kaupin. Fjárfestingahópurinn hætti við að kaupa félagið á síðasta ári eftir að enska úrvalsdeildin neitaði að samþykkja söluna.

Það má gera ráð fyrir því að eigendaskiptin verði tilkynnt á morgun og eflaust ríkir mikil gleði á meðal stuðningsmanna enda afar auðugir menn á bakvið fjárfestingahópinn.

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, er á bakvið hópinn en hann er afar umdeildur og er sakaður um mannréttindabrot í heimalandinu. Hann er meðal annars talinn bera ábyrgð á morði fréttamanns Washington Post. Jamal Khashoggi, í sádí-arabíska sendiráðinu í Tyrklandi.
Athugasemdir
banner
banner