Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   þri 07. apríl 2020 19:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Glódís rifjar upp sigurinn á Þýskalandi: Smá Diego Costa
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann Þýskaland 3-2.
Ísland vann Þýskaland 3-2.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona, rifjar upp eina af sínum uppáhalds fótboltaminningum í viðtali við RÚV. Glódís rifjar upp leikinn gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2019 sem Ísland gerði sér lítið fyrir með því að vinna.

Föstudaginn 20. október 2017 sýndi íslenska kvennalandsliðið magnaða frammistöðu í Wiesbaden í Þýskalandi þegar það vann 3-2 útisigur gegn heimakonum sem voru í öðru sæti á heimslista FIFA.

Íslenska kvennalandsliðið hafði ekki skorað gegn Þýskalandi í 30 ár áður en Dagný Brynjarsdóttir braut ísinn í leiknum með marki af stuttu færi á 15. mínútu. Þýskaland jafnaði fyrir hálfleik en Elín Metta Jensen endurheimti forystuna fyrir Ísland með frábæru marki. Dagný skoraði svo sitt annað mark og jók forystu Íslands í 3-1. Þýskaland náði að minnka muninn í lokin og pressaði stíft í blálok leiksins en tókst ekki að jafna.

Svo sannarlega einn fræknasti sigur kvennalandsliðsins frá upphafi.

„Þéttur varnarleikur, hápressumóment og skyndisóknir var áætlun okkar í leiknum á móti margföldum heims-, Ólympíu- og Evrópumeisturum Þýskalands. Við pressuðum þær alveg ofan í þeirra vítateig milli þess sem við spiluðum þétta lágpressu og létum þær finna fyrir því. Þær voru alls ekki tilbúnar að mæta okkur í þessum gír," segir Glódís.

Ísland hægði mikið á leiknum og var lagt upp með að „taka Diego Costa á þetta".

„Við töluðum um að taka góðan tíma í föst leikatriði og ef við myndum lenda í samstuði ættum við að liggja eftir og 'taka smá Diego Costa á þetta' eins og Freysi (landsliðsþjálfari) orðaði það svo vel. Mig minnir að Freyr hafi sagt eftir leik að við eyddum um 25 mínútum af leiknum í föst leikatriði og tafir. Og ég er mjög viss um að það hafa aldrei verið tekið jafn mörg löng innköst í einum fótboltaleik því hvert einasta innkast sem við fengum í þessum leik var tekið langt."

„Það er margt sérstakt við þennan sigur og hann mun líklegast seint gleymast. Það sem hins vegar stendur upp úr fyrir mér er er það sem hann leiddi af sér. Að ári seinna komu 10.000 íslendingar á Laugardalsvöll og við fylltum völlinn í fyrsta skipti í sögunni," segir Glódís en greinina má í heild sinni lesa hérna.

Ísland endaði í öðru sæti í riðlinum að lokum, á eftir Þýskalandi og komst ekki á HM - því miður. Núna er liðið í haðri baráttu um að komast á EM, sem fer líklega fram 2022 vegna kórónuveirufaraldursins.
Athugasemdir
banner
banner
banner